Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Óttast að Glasgow-borgar bíði alþjóðleg niðurlæging

Mynd með færslu
 Mynd: Public domain pictures
Nokkrar efasemdir virðast uppi um að Glasgow, stærsta borg Skotlands, ráði fyllilega við það verkefni að halda 26. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem hefst í lok mánaðarins. Ónógt gistipláss, rottuplága og boðað verkfall lestarstarfsmanna er meðal þess sem kann að setja strik í reikninginn.

Blendnar tilfinningar

Breska blaðið Guardian fjallaði um málið í dag. Búist er við að um 30 þúsund sendifulltrúar frá 196 ríkjum sæki ráðstefnuna, sem er sú mikilvægasta frá loftslagsráðstefnunni í París árið 2015.

Ráðstefnuvettvangurinn er tilbúinn og innan skamms verður farið að loka götum í grennd við hann, það þarf jú að gera ýmsar ráðstafanir þegar fjöldi þjóðarleiðtoga og fyrirmenna koma saman. Borgarráð Glasgow-borgar hefur sent yfir 9000 bréf til íbúa og fyirrtækja sem kunnu að verða fyrir truflunum vegna ráðstefnunnar. Sumir veitingamenn sjá ráðstefnuna sem tækifæri, aðrir hafa áhyggjur af því að sendingar berist ekki vegna lokana. 

Gistikostir af skornum skammti

Verð á gistingu hefur víða rokið upp í hæstu hæðir enda lítið í boði. Guardian heldur því fram að einhverjar sendinefndir hafi neyðst til þess að bóka hótel í 160 km fjarlægð frá ráðstefnuhöllinni. Tvö eistnesk skemmtiferðaskip sem liggja við bakka árinnar Clyde eiga að hýsa öryggisverði og fleira nauðsynlegt starfsfólk. 

Meðal þeirra sem Guardian segir eiga í mestu vandræðum við að finna gistingu eru 130 ættbálkaleiðtogar sem hafa ekki látið sig vanta á loftslagsráðstefnur Sameinuðu þjóðanna frá ráðstefnunni í Ríó de janeiró árið 1992. Viðvera þeirra er talin mikilvæg á ráðstefnunni, enda hafa samfélög þeirra oft upplifað neikvæðar afleiðingar loftslagsbreytinga á eigin skinni. 

epa09180892 Designated British chairman of COP26, Alok Sharma, attends a virtual '12th meeting of the Petersberg Climate Dialogue conference' in Berlin, Germany, 06 May 2021. The Petersberg Climate Dialogue is a series of annual conferences attended by government ministers from around the world as a precursor to the annual United Nations climate conference.  EPA-EFE/KAY NIETFELD / POOL
 Mynd: KAY NIETFELD - EPA
Alok Sharma er forseti loftslagsráðstefnunnar í Glasgow.

 

Gagnrýnd fyrir að gera ekki nóg

Gagnrýnendur hafa þrýst á borgaryfirvöld að reyna að finna lausnir á gistivandanum, einkum fyrir hópa sem ekki geta varið fúlgum fjár í dýra gistingu. Á fyrri ráðstefnum komu yfirvöld upp gistiaðstöðu á líkamsræktarstöðvum en COVID-viðbúnaður setur slíku ákveðnar skorður nú. 

Borgarráð hefur líka sætt gagnrýni vegna bágs ástands gatna borgarinnar, rottur hafa verið til vandræða og ekki bætir úr skák að sorphirðumenn hafa boðað til verkfalls á meðan á ráðstefnunni. Lestarstarfsmenn hyggjast líka grípa til vinnustöðvana vegna launadeilna og til að bæta gráu ofan á svart eru lögmenn tregir ti þess að takast á við það verkefni að gæta hagsmuna þeirra mörg hundruð mótmælenda sem stjórnvöld sjá fyrir sér að verði handteknir á meðan á ráðstefnunni stendur, þeir gagnrýna ríkið fyrir að hafa nýlega skorið fjárframlög til slíkrar lögfræðiaðstoðar niður. Loks má nefna áhyggjur af fjölgun COVID-smita í borginni, sem talin er óhjákvæmilegur fylgifiskur svo stórs viðburðar, og auknu álagi á heilbrigðiskerfið. 

Pólitískir mótherjar óttast að borgin verði gripin í bólinu

Bresk stjórnvöld bera ábyrgð á skipulagi ráðstefnunnar þetta árið en viðmælendur Guardians eru óragir við að kenna skoskum stjórnvöldum og skoska þjóðarflokknum, sem leiðir borgarráð Glasgow-borgar, um þá agnúa sem upp hafa komið.

Leiðtogar flokka sem ekki sitja við stjórnvölinn óttast að borgin verði niðurlægð frammi fyrir allri heimsbyggðinni. Paul Sweeney, þingmaður Skoska Verkamannaflokksins, segir í samtali við Guardian að í stað þess að vera lyftistöng finnist honum eins og ráðstefnan sé eitthvað sem eigi eftir að koma fyrir borgina. „Við höfum eiginlega verið gripin í bólinu,“ segir hann.