„Margir leiðtogar eru fyrst og fremst fylgjendur“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist
Halldór Þorgeirsson, formaður loftslagsráðs, segist hugsanlega verða orðinn að jarðvegi árið 2050, en hann vonar að þá verði hægt að hlusta á söng vaðfugla í borginni, að við höfum endurheimt vistkerfi, eyðum ekki stórum hluta dagsins í umferðarteppu og höfum úrval fæðu sem að mestum hluta komi úr plönturíkinu. Hann og tveir aðrir sérfræðingar sem komið hafa fram á upplýsingafundum loftslagsverkfallsins ræddu framtíðarsýn sína á fundinum í gær, en fundurinn var sá síðasti í þriggja funda röð.

Tilvísun í þríeykið

Fundirnir hafa farið fram í Norrræna húsinu og uppsetningin minnir svolítið á upplýsingafundi Almannavarna, þar sem þrír fastir sérfræðingar, ákveðið þríeyki, halda erindi og sitja fyrir svörum. Þetta voru þau Halldór Björnsson, formaður Vísindanefndar um loftslagsbreytingar, Halldór Þorgeirsson, formaður loftslagsráðs og Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun. 

Í máli þeirra í gær komu fram þekkt stef, svo sem að einungis væru nokkur ár til stefnu eigi að koma í veg fyrir að meðalhiti hækki um meira en 1,5 gráður frá því sem var fyrir iðnbyltingu. Sé stefnan sett á tveggja gráðu markmiðið höfum við nokkra áratugi til að ná kolefnishlutleysi.

Mynd með færslu
 Mynd: Loftslagsverkfallið
Þríeyki Loftslagsverkfallsins; Halldór Þorgeirsson, Hafdís Hanna Ægisdóttir og Halldór Björnsson. Skjáskot af fundinum sem var táknmálstúlkaður.

Siðferðisarfleifð og orð ellefu ára dóttur

Þau tóku undir með Elísabetu Bretadrottningu, sögðu ekki þörf á frekari loforðum, nú sé tími aðgerða runninn upp. Hafdís Hanna vísaði í orð 11 ára dóttur sinnar, leiðtogar heims þyrftu að hætta að vera hræddir og gera eitthvað í málunum til að hennar kynslóð ætti möguleika á góðri framtíð. 

Halldór Björnsson ræddi siðferðislegar hliðar loftslágsvárinnar. Nýjar rannsóknir sem sýndu fram á að milljónir látist vegna afleiðinga hnattrænnar losunar á ári hverju, svo sem þurrkum og óveðrum, þetta séu ekki færri en látist af völdum loftmengunar. 

„Við getum auðveldlega skotið á þátt Íslands í þessu. Þetta er sú siðferðislega áskorun sem mín kynslóð og kynslóð forfeðra minna er að afhenda þeirri kynslóð sem nú er að taka við. Þetta er arfleifðin.“ 

Fínstilling dugi ekki

Halldór Þorgeirsson, talaði um að fólk mætti ekki gleyma sér í smáatriðunum, þetta snerist ekki um að fínstilla heldur þyrfti umskipti. „Allt þarf að breytast. Það er mikilvægt að huga að því sem Nelson Mandela sagði, það virðist ómögulegt þangað til það er gert. Verkefnið er stórt og við getum tapað miklum tíma ef við höldum að þetta sé fínstilling, ef við liggjum undir bílnum og reynum að laga eitthvað þegar kannski ættum við að henda honum.“ 

Hann lagði áherslu á að verkefnið væri ekki afmarkað, það þurfi að horfa á loftslagsvandann í samhengi við aðra þætti, álagið á lífríkið og fæðukerfi jarðar sem standi ógn af fleiri þáttum en loftslagsbreytingum. „Það hljómar kannski skringilega en við þurfum að stækka verkefnið til að ná árangri.“ 

Ekki hægt að treysta alfarið á neinn

Halldór ræddi líka um mikilvægi sannra leiðtoga. „Það er misskilningur að allir leiðtogar séu leiðtogar, margir þeirra eru fyrst og fremst fylgjendur. Þess vegna þurfum við að horfa til raunverulegra leiðtoga, það er þessi kraftur sem við þurfum að ná fram, það eru andlegir leiðtogar, leiðtogar meðal ungs fólks, leiðtogar í atvinnulífinu og meðal fjárfesta. Við þurfum öll að rísa upp því við getum ekki treyst því að stjórnvöld nái utan um þetta, við getum ekki treyst því að atvinnulífið nái utan um þetta, getum ekki treyst vísindamönnunum eingöngu, við þurfum öll að rísa upp og berjast fyrir þessari framtíð.“ 

Tvískinnungur

Halldór gagnrýndi nýlega stjórnvöld fyrir að hafa ekki skilað framtíðarsýn sinni til Loftslagsskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, UNFCCC, líkt og fjöldi þjóða hefur gert í aðdraganda 26. loftslagsráðstefnunnar sem hefst í Glasgow í Skotlandi í byrjun nóvembermánaðar. Umhverfisráðherra segir að vinna við plaggið hafi dregist en það standi til að skila því inn í næstu viku. Halldór segir mikilvægt að horfa á heildarmyndina, ekki bara það sem ríkisstjórnir tíunda í framtíðarsýn sinni og landsframlögum. „Við megum ekki gleyma því að á meðan eru þessi ríki að dæla peningum í að niðurgreiða kol og olíu sem er raunverulega að grafa undan framtíðinni.“

Sjá einnig:  Áætlanir ríkja heims langt yfir loftslagsmarkmiðum

Allir þurfi að vinna saman

Hafdís Hanna Ægisdóttir, talaði um mikilvægi samstöðu. Verkefnið krefjist þess að allir, alls staðar vinni saman; þjóðarleiðtogar, alþjóðastofnanir, stór fyrirtæki, lítli fyrirtæki, sveitarfélög, ríkisstofnanir og einstaklingar. „Við þurfum að horfa eftir því sem sem sameinar okkur, frekar en það sem sundrar okkur því sameinuð náum við árangri. Það þarf að horfa til þess að það er enginn einn geiri eða ein lausn, við þurfum margar lausnir. Að stoppa losunina, binda kolefni í jarðvegi og gróðri og huga að aðlögun,“ sagði hún.

Henni er líka umhugað um að þjóðir heims hafi jöfnuð og sanngirni að leiðarljósi þannig að enginn verði útundan og að fólk setji hlutina í samhengi, átti sig á flóknum tengslum umhverfiskreppunnar við fátækt, stríð og átök, tengsl þjóðfélagshópa, kynja og kynslóða. Huga þurfi að velferð allra jarðarbúa og áhrifa aðgerða hér heima á annað fólk, ekki bara á hagsmuni Íslands. „Við getum verið með kolefnishlutlaust hagkerfi án réttlætis og sanngirni en þetta er mín sýn að hugsa um alla þessa þætti,“ segir Hafdís Hanna.  

Hér má horfa á fundinn:

Spurning frá Andra Snæ

Undir lok fundarins spurði Andri Snær Magnason, rithöfundur, loftslagsþríeykið út í það hvort þau væru tilbúin að gera eitthvað óþægilegt eða sæta takmörkunum í þágu loftslagsins. Þau sögðust gera ýmislegt en vildu síður kalla það fórnir.

Halldór Björnsson sagði kórónuveiruna hafa orðið til þess að utanlandsferðum hans fækkaði til muna. Hann kolefnisjafnar annars flugferðir sínar og hefur yndi af því að ferðast um á rafskútum þó að skilmálarnir segi að hann sé of gamall. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Halldór Björnsson, formaður vísindanefndar um loftslagsmál

Hann hefur breytt mataræðinu. „Ég er að reyna að vera meira climaterian. Það er stundum óþægilegt, maður horfir á eitthvað sem mann langar í en svo hugsar maður nei, þetta er með fáránlegt kolefnisspor svo ég ætla ekki að borða þetta. Svo hef ég eytt brjáluðum tíma í að svara allskyns röflurum um loftslagsbreytingar og það er mjög óþægilegt,“ segir Halldór. 

Hafdís segist hafa endurhugsað matarinnkaup í þeim tilgangi að minnka sóun. Þá hafi hún minnkað neyslu á lambakjöti og óþarfa ferðalög. Það er kannski óþægilegast hvernig unga kynslóðin, börnin mín, stilla mér upp við vegg og spyrja krefjandi spurninga,“ segir hún. 

Kolefnisjafnaði sig til frambúðar

Halldór Þorgeirsson ákvað árið 2015 að áætla hversu mikið hann ætti eftir að losa af gróðurhúsalofttegundum það sem eftir lifði ævinnar og kolefnisjafna þá losun svo að fullu.

Þetta gerði hann eftir að hafa haft yfirumsjón með samningaferlinu fyrir Parísarsamninginn, en hann var framkvæmdastjóri alþjóðasamvinnumála hjá skfiftsofu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. „Ég ætla ekki að standa hér og segja að ég sé fremri öðrum, þetta snýst ekki um svart og hvítt heldur þetta gráa, þetta er ekki spurning um að hætta að borða lambakjöt heldur að borða það frekar á hátiðisdögum. Við eigum ekki að miðla sektarkennd til annarra eða setja okkur á háan hest,“ segir hann. 

Að lokum ræddu þau hvernig þau myndu vilja sjá heiminn þróast.

Mynd með færslu
 Mynd: Alex Máni Guðríðarson
Heiðlóa.

Halldór segist hugsanlega verða orðinn að jarðvegi árið 2050, en hann vonar að þá verði hægt að hlusta á söng vaðfugla í borginni, að við höfum endurheimt vistkerfi, eyðum ekki stórum hluta dagsins í umferðartepu og höfum úrval fæðu sem að mestum hluta komi úr plönturíkinu. „Ég vil búa til mannvænna samfélag en um leið umhverfisvænna.“

Hafdís Hanna vonar að framtíðin hafi í för með sér minna stress, minna lífsgæðakapphlaup og meiri frið og sátt fólks hvert við annað. 

Halldór Björnsson, segist vera bjartsýnismaður, tækifærin séu endalaus og nóg til af frábærum lausnum. „Ég er oft svo hneykslaður á að fólk sé ekki vaðandi í þessar lausnir í stað þess að vera þrælar í viðjum vanans og kvarta yfir að fá ekki að bora einhvers staðar.“ 

23.10.2021 - 08:36