Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Lýsa ekki yfir goslokum fyrr en eftir 3ja mánaða hlé

Eldgosið í Geldingadölum í Fagradalsfjalli 23. mars 2021.
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Ekki verður lýst yfir goslokum í Fagradalsfjalli fyrr en eftir að minnsta kosti þriggja mánaða goshlé. Ekkert hraunrennsli hefur verið þar í fimm vikur.

Þekkt að gjósi í langan tíma á þessu svæði

Frá því eldgosið hófst við Fagradalsfjall í mars hefur það tekið nokkur goshlé, en aldrei nándar eins langt og nú. Eldvirkni hefur legið niðri í fimm vikur, og dregið hefur úr skjálftavirkni undanfarið. Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að ekki sé þó tímabært að lýsa yfir goslokum. „Það er yfirleitt miðað við svona þrjá mánuði af engri virkni sem er hægt með fullri vissu að segja að þessu sé lokið,“ segir Lovísa. Hún segir mögulegt að kvikan brjóti sér leið upp annars staðar. „Það er einn möguleikinn sem við sjáum í þessu, hvort að kvikan sé núna bara að finna sér aðra leið upp en það virðist vera að það sé eitthvað að hægja á þessu, skjálftarnir fara fækkandi núna með hverjum degi, þannig að hún virðist alla vega ekkert vera að grynnka. Skjálftarnir eru enn á fimm kílómetra dýpi. “

„En við munum bara sjá það með tímanum hvað gerist á þessu svæði, það er þekkt þarna að það gjósi í mjög langan tíma og það er spurning hvort við séum komin í þannig tímabil eða ekki. Hvort þetta sé einsdæmi eða hvort það haldi bara áfram þarna næstu árin,“ segir Lovísa.

Land rís við Öskju og vatnshæð rís í Grímsvötnum

Veðurstofan fylgist einnig náið með Öskju, þar sem land hefur risið um fimmtán sentimetra frá því í byrjun ágúst. Lovísa segir öruggt að landrisið sé vegna kviku, sem er á um þriggja kílómetra dýpi, en reynslan sýni að langur tími geti liðið þar til hún brýst upp á yfirborðið. „Í Fimmvörðuhálsi þá sáum við landris í hátt í tíu ár áður en það gaus þar. Það er spurning hvort það muni taka jafn langan tíma eða styttri, það er allur gangur á þessu.“

Þá er fylgst með vatnshæð í Grímsvötnum. „Vatnshæðin er orðin frekar há og við jafnvel bjuggumst við að það kæmi jökulhlaup í sumar eða á næstunni, en það hefur ekki enn orðið,“ segir Lovísa. „Þannig að við fylgjumst áfram með því.“