Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Keyptu einstaka plötu á uppboði fyrir 4 milljónir dala

Mynd með færslu
 Mynd:

Keyptu einstaka plötu á uppboði fyrir 4 milljónir dala

23.10.2021 - 05:42

Höfundar

Hópur safnara keypti á uppboði í júlí eina eintakið sem til er af Once Upon a Time in Shaolin plötu bandarísku rappsveitarinnar Wu-Tang Clan frá árinu 2015. Upplýsingum um kaupandann var haldið leyndum þar til nú í vikunni.

Kaupverðið er fjórar milljónir Bandaríkjadala eða jafnvirði um 518 milljóna íslenskra króna. Platan var áður í eigu milljarðamæringsins Martin Shkreli sem hlaut dóm fyrir verðbréfasvik fyrir nokkrum árum.

Hann vakti heimsathygli árið 2015 fyrir að hækka verð á alnæmislyfi um fimm þúsund prósent daginn eftir að fyrirtæki hans fékk réttinn á því. Fyrir vikið fékk hann viðurnefnið „hataðasti maður Bandaríkjanna“. 

Aðeins eitt eintak var framleitt af plötunni sem er í veglegum kassa ásamt 174 síðna bók. Shkreli keypti plötuna á tvær milljónir dala með því skilyrði að ekki mætti dreifa henni stafrænt og að hann skyldi hana í 88 ár. Annars mætti hann gera hvað sem hann kysi við plötuna.

Hún var hins vegar seld í sumar á uppboði til að jafna skuld eigandans við bandaríska ríkið. Hópurinn sem keypti hana, PleasrDAO á meðal annars sjaldgæfar, stafrænar upptökur með bandaríska uppljóstraranum Edward Snowden og rússneska femínistapönkbandinu Pussy Riot.

Hópurinn vonast nú til að geta deilt þessu einstaka verki Wu-Tang Clan með heimsbyggðinni án þess að brjóta upphaflega samning sveitarannir við Martin Shkreli. 
 

Tengdar fréttir

Tónlist

Verðmætustu plötur Íslandssögunnar

Menningarefni

„Hataðasti maður Ameríku“ í sjö ára fangelsi