Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Greta Thunberg kallar eftir þrýstingi frá almenningi

epa07850926 Swedish climate activist and Fridays for Future founder Greta Thunberg attends the joint House Foreign Affairs and House (Select) Climate Crisis committees hearing in the Rayburn House Office Building at the Capitol in Washington, DC, USA, 18 September 2019. The hearing's topic was 'Voices Leading the Next Generation on the Global Climate Crisis'.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER
 Mynd: ERIK S. LESSER - EPA
Sænski loftslagsaðgerðasinninn Greta Thunberg segir fjölmennar ráðstefnur einar og sér ekki leiða til þess að loftslagsmarkmið náist nema almenningur krefjist einnig breytinga. Hún fagnar því að hlustað sé á hana og sakar ráðamenn um feluleik og afsakanir í málaflokknum.

Þetta kemur fram í samtali breska ríkisútvarpsins BBC við Gretu í aðdraganda COP26 loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna dagana 31. október til 12. nóvember.

Hún segir að almenningur þurfi að rífa núverandi kerfi upp með rótum og krefist breytinga. „Við getum ekki búist við að allt gerist á þessum ráðstefnum,“ segir hún.

Ráðstefnan í ár, sem haldin verður í Glasgow í Skotlandi, er sú viðamesta síðan 21. loftslagsráðstefnan var haldin í París 2015. Niðurstaða hennar var Parísarsáttmálinn en markmið hans er að stöðva aukningu í útblæstri gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og ná að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°. 

Nú verða 200 ríki beðin að leggja fram áætlun um hvernig þau hyggist draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Stefnan er að losunin minnki um átta prósent ár hvert til 2030.

Greta Thunberg fagnar því að hlustað sé á hana en sakar stjórnmálamenn um eilífar afsakanir í málaflokknum. Hún verður sjálf viðstödd ráðstefnuna, skilaboð hennar eru skýr.

„Verið heiðarleg varðandi stöðuna, hvernig þið hafið brugðist og haldið áfram að bregðast okkur. Þið ættuð frekar að einbeita ykkur að því að finna raunverulegar, haldgóðar lausnir sem leiða til grundvallarbreytinga.“

Hún kvartar undan skorti á leiðtogum í loftslagsmálum, ekki síst á norðurhveli jarðar. Það þýði þó ekki að stjórnmálamenn ákveði ekki að taka vandann alvarlega einn daginn.

Greta Thunberg segir markmiðið að láta af allri losun gróðurhúsategunda góða byrjun en alveg merkingarlausa leiti fólk í sífellu að leiðum til að komast hjá því.