Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fyrrum aðstoðarmaður Giulianis hlýtur dóm

epa08702728 Rudy Giuliani, Former New York City Mayor and lawyer for US President Trump, answers a question during a news briefing at the White House in Washington, DC, USA, 27 September 2020.  EPA-EFE/Chris Kleponis / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Polaris Images
Alríkisdómstóll á Manhattan fann Lev Parnas, áður viðskiptafélaga Rudys Giuliani fyrrverandi lögmanns Donalds Trump, á föstudag sekan um brot á lögum um fjármögnun kosningaframboða.

Parnas sem fæddur er í Úkraínu en hafur bandarískt ríkisfang var handtekinn í október 2019. Hann var talinn hafa tekið þátt í tilraunum Giulianis við að þrýsta á Úkraínuforseta til að hefja rannsókn á Joe Biden og syni hans Hunter Biden.

Parnas og aðstoðarmaður hans Andrey Kukushkin voru dæmdir sekir um að hafa spilað með stjórnmálakerfi Bandaríkjanna sjálfum sér til fjárhagslegs ávinnings. 

Þeir hafi falið uppruna erlends fjármagns sem þeir dældu til nokkurra frambjóðenda í kosningum á miðju kjörtímabili 2018. Með því hafi þeir ætlað sér að ná áhrifum, meðal annars svo þeir gætu hagnast á kannabisræktun.

Meðal annars hafi rússneskur kaupsýslumaður lagt fram fé til kosningabaráttu Repúblikana í Nevadaríki og einnig hafi 325 þúsund Bandaríkjadalir runnið til America First samtakanna sem studdu Trump.

Ólöglegt er fyrir bandaríska stjórnmálamenn að þiggja styrki úr höndum erlendra ríkisborgara. Parnas og Kukushkin ganga enn lausir en bíða úrskurðar um refsingu.  

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV