Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fresta birtingu skjala um morðið á John F. Kennedy

23.10.2021 - 08:49
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Bandarísk stjórnvöld tilkynntu í gær að ákveðið hefði verið að fresta birtingu gagna um morðið á John F. Kennedy forseta Bandaríkjanna árið 1963.

Donald Trump heimilaði í sinni forsetatíð birtingu nokkurra þúsunda leyniskjala um morðið en hélt eftir þeim sem vörðuðu þjóðaröryggi.  Í tilkynningu sem Joe Biden núverandi forseti undirritar segir að þau gögn sem eftir eigi að birta verði fyrst birt í desember á næsta ári, þegar nærri sextíu ár eru liðin frá því Kennedy var ráðinn af dögum. Heimsfaraldurinn skýri tafir á birtingu skjalanna auk þess sem nauðsynlegt sé að bíða með birtingu þeirra til þess að vernda þjóðaröryggi. Það vegi þyngra en áhugi almennings á gögnunum.  

Morðið á forsetanum, sem þá var 46 ára, var „djúpstæður harmleikur“ sem „heldur áfram að hafa áhrif í bandarískri sögu og minningum margra Bandaríkjamanna sem lifðu þennan hræðilega dag,“ segir jafnframt í tilkynningu frá Biden.

Earl Warren hæstaréttardómari leiddi tíu mánaða rannsókn á morðinu og komst að þeirri niðurstöðu að Lee Harvey Oswald, fyrrverandi hermaður sem hafði búið í Sovétríkjunum, hefði verið einn að verki þegar hann skaut að bílalest forsetans í Dallas í Texas-ríki 22. nóvember 1963.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV