Fór á mjög slæman stað þegar Þorvaldur lést

Mynd: Helena Jónsdóttir / Aðsend

Fór á mjög slæman stað þegar Þorvaldur lést

23.10.2021 - 09:43

Höfundar

„Við vorum alltaf saman og ef við vorum ekki saman vorum við bara eins og unglingar,“ segir Helena Jónsdóttir um samband sitt og Þorvalds Þorsteinssonar heitins. Þau trúlofuðu sig þrisvar og giftu sig svo, enda viss um það frá nánast fyrsta bliki að þau vildu verja ævinni saman. Helena segist ekki viss um að hún hafi hlegið innilega í þau sjö ár sem liðið hafa frá því hann lést, en hún lifir með sorginni.

Helena Jónsdóttir listakona, leikstjóri, dansari og danshöfundur skartar jafnan fallegum höttum og ferðast á hjóli í heimaborg sinni Antwerpen í Belgíu. „Ég hef verið með hatta frá því ég var unglingur en ég hætti því á tímabili því fólk eða vindur var oft að taka hann af mér og prófa,“ segir hún í viðtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1. „Það er rakt í Antwerpen á veturna, allt öðruvísi. En mjög ljúfir vetur, maður er á hjóli allan ársins hring.“ Hún segir frá listinni, sorginni og því sem fylgdi að missa Þorvald Þorsteinsson lífsförunaut sinn og listamann, og því sem er á döfinni hjá listakonunni.

Heillaðist af því hvað hún var óbangin

Þau Þorvaldur fluttu saman til Antwerpen fyrir mörgum árum. Þau féllu fyrir borginni nánast við fyrstu sýn og eftir að þau fluttu var íbúð þeirra nánast alltaf full af lífi, íslenskum vinum þeirra og nágrönnum af meginlandinu. „Við eignuðumst þarna fullt af vinum á þessum stutta tíma sem hann var á lífi og þessir vinir eru enn í kringum mig í dag,“ segir hún. „Það er mikið af listafólki í Antwerpen þannig ég er umkringd listinni og svokallaðri Antwerpenfjölskildu.“

Hún hitti á Þorvald fyrst skipti þegar hún var að vinna að verkefni í kaffileikhúsinu sem hann skrifaði. Á þeirri frumsýningunni kynnti hann sig fyrir henni, en hann hafði tekið eftir henni  og hennar list um hríð. „Ég var meira þekkt í fjölmiðlum sem dansari en ég var líka að gera alls konar list. Honum fannst svo heillandi hvað ég var óbangin að gera „allskonar“.

Hún var að vinna í annarri sýningu árið 1997 þegar þau hittust á kaffihúsi, þar sem Helena var stödd með vinum sínum. Þorvaldur settist hjá þeim og Helena spurði: „...ég er að leita að texta fyrir sýninguna mína, ekki átt þú eitthvað?“ Hann svaraði: „Jú, það á ég sannarlega, ég er að fara erlendis í nokkra daga og verð í bandi um leið og ég kem til baka.

Voru annaðhvort saman eða í símanum að tala saman

Helena þurfti textann fyrir sýninguna sína fyrr svo hún hafði samband við Guðmund Andra Thorsson. Svo mættust þau Þorvaldur aftur eftir frumsýninguna á kaffihúsinu Sólon. „Ég var að labba niður og hitti þar á Þorvald í stiganum. Við fórum að spjalla og án þess að taka eftir því þá fór ég að laga trefilinn hans, hann segir: Þú hafðir aldrei samband,“. Hún bað hann afsökunar og bauð honum þess í stað á næstu sýningu.

Þorvaldur mætti á sýninguna og kom hann baksviðs með Halla vini sínum og við settumst öll saman í drykk. Frá þeim tíma byrjuðu þau að hittast og voru saman allar götur síðan, eða þar til Þorvaldur féll frá. „Við vorum alltaf saman og ef við vorum ekki saman vorum við í símanum eins og unglingar.“ Urðum að deila öllu.

Þegar parið bjó í Los Angeles þurfti Helena að fara til Íslands til að frumsýna nýja sýningu í Borgarleikhúsinu. Að lokinni sýningu tók hún strax símann til að  deila hverri upplifun með Þorvaldi. „Ég sat of lengi inni í sal og Katrín Hall þurfti að koma að sækja mig: Helena mín, þú ert búin að vera í hálftíma í símanum. Þú þarft að fara að hitta fólk hérna frammi.“

Trúlofuðu sig þrisvar

Þau trúlofuðu sig ekki einu sinni heldur þrisvar, og voru alltaf að fara skipuleggja brúðkaupið, enda handviss frá nánast fyrsta bliki að vilja verja ævinni hvort með öðru. Það stóð nokkuð lengi á Helenu að finna tíma til að skipuleggja brúðkaupið, það kom í hennar hlut enda leikstjórinn í sambandinu, Þovaldur minnti hana reglulega áog skýrir það trúlofunarnar þrjár. Og var það mikil gleði þegar þau loks gátu kallað hvort annað eiginkonu og -mann. Það var í ágúst árið 2011 sem þau létu vaða. „ ég man að við sonur minn keyrðum út öll boðskortin flest út sem var ekki lítið vinna,“ segir hún. „Við höfðum þetta hófvært og ljúft, vorum með okkar nánustu ættingja heima á verönd á Njálsgötunni þar sem systir hans Þorvaldar hún Jóna Lísa gifti okkur. Svo daginn eftir hentum við í partí fyrir aðra ættingja og vini. Mikil gleði.“

„Ég samhryggist“ borgar ekki reikningana

Þorvaldur er enn stór hluti af lífi Helenu þó hann sé farinn. Hún hefur líka misst fleiri af sínum allra nánustu. „Báðar systur mínar eru farnar, móðir mín og besta vinkona og samstarfskona. Ætli ég sé ekki orðinn einhver skonar sérfræðingur í missi,“ segir Helena.

Margir komu að máli við hana eftir að Þorvaldur lést til að votta henni samúð enda snart hann marga, bæði verk hans og persóna. „Fjölmargir þekktu hann og vildu sýna sína væntumþykju til mín og kann ég að meta það. Við kunnum þó kannski ekki alveg á hvað er hægt að gera og seigjum oft: Ég samhryggist þér. Ég var komin með ógeð á þessum orðum, ég samhryggist þér ég veit að fólk vill vel en það borgar ekki reikningana í þessu lífi.“

Sögurnar rífa upp öll sárin

Hún lendir líka gjarnan í því að fólk vill sýna samhug með því að deila frásögnum af sínum eigin missi. „Eitt dæmi, ég fór í bakaríið og hitti þar góðan mann. Hann segir: Ég skil þig svo vel, ég missti ömmu mína fyrir ári...,“ rifjar Helena upp. „og hann segir mér frekar frá því. Á eftir sit ég út í bíl og brotna niður,  öll sárin rifna upp því ég finn svo til með honum.“ Hún mælir með því að fólk segi sér heldur gleðisögur eða veiti von. „Hvetji mig og gefi mér hrós. Við erum kannski alltof hógvær að hrósa fólkinu okkar hér á Íslandi.“

Bókin sem bjargaði lífi Helenu

Missirinn er ólýsanlega sár og hefur listin hjálpað henni á sinn hátt til að lifa með sorginni. „Ég mæli með listinni til að hjálpa okkur í gegnum erfið sem góð skref í þessu lífi og hef oft spjallað um það við fólkið mitt hvað ég er þakklát að hafa listina mér við hlið.“
Vinur hennar sem býr í Brussel og er rithöfundur heimsótti Helenu einn daginn nokkuð eftir fráfallið og færði henni bókina The Year of Magical Thinking eftir Joan Didion, sem hafði vægast sagt áhrif. „Hún bjargaði mér. Hún hélt mér á lífi,“ segir Helena ákveðin. Í bókinni segir Joan frá því þegar eiginmaður hennar lést, reynslu sem þær Helena deila. „Bókin er komin upp í hillu orðin útkrotuð og slitin, ég hika ekki að gefa öðrum þessa bók við sömu aðstæður.“

Missti mann sinn sama dag tíu árum fyrr

Hún segir ótrúlega mikilvægt að tala um sorgina og óttast það ekki, það hefur hún lært. „Ég er mikið í kringum móðursystur mína sem var besta vinkona móður minnar og þær töluðu saman á nær hverjum degi. Hún missti manninn sinn á sama degi og Þorvaldur dó, 23. febrúar tíu árum fyrr,“ segir Helena. Móðursystir hennar gat því gefið henni dýrmæt ráð í sorgarferlinu. „Hún sagði til dæmis þegar ég var alveg að brotna við minnsta tilvik: Já ég sé að sárið er enn opið, það tekur einhverja mánuði að loka því, ef allt gengur og þá geturðu byrjað að verja þig“. Sorgin breytist ekkert, þú bara lærir að lifa  með henni, verður sterkari með tímanum. Maður brynjar sig upp og tekur áfram þátt í hversdagsleikanum, tilfinningin breytist ekkert frá því aðilinn fer, það er bara svoleiðis.“

Eðlilegt að vera viðkvæma litla stelpa foreldra sinna

Hún segir eðlilegt að maður verður aftur lítill þegar foreldrarnir falla frá, sama hve fullorðin þau eru þegar þau fara. „Það breytir því ekkert, þetta eru pabbi og mamma og það má alveg vera lítill, viðkvæm,  litla stelpan eða strákurinn. Það er bara eðlilegt, svo lærum að lifa með því,“ segir Helena.

Eftir missinn leitaði hún aðstoðar víða, allskonar aðstoð við að glíma við sorgina á ólíkann hátt því hvert ferli er ólíkt.  Í þeirri leit  fann hún myndskeið frá írskri konu sem einnig hafði misst maka sinn. Hún gaf Helenu mikilvægt ráð sem hún er fegin að hafa fylgt. „Hún sagði: Ekki taka stóra ákvörðun fyrsta árið og alls ekki flytja um búsetu. Halda hreiðrinu í að minnsta kosti eitt ár,“ segir Helena sem hlýddi og leyfði fötunum að hanga inni í skáp þar til hún var komin í jafnvægi.

Sequences, ferðalag sem er rétt að byrja.

Á Sequences-hátíðinni sem nú stendur yfir og frumsýndi Helena nýtt verk sem hún kallar „Journey... rétt að byrja,“ sem þar á meðal fjallar um ferðalag sorgarinnar. „þetta er min saga á bakvið verkið en ég vil að áhorfandinn upplifi það sem hann sér,“ segir hún. Og klárast sýningar á þessu verki í Flæði á Vesturgötunni á 24 Oktober. Annað verk sem Helena gerði hér um árið hét upprunalega „Another wonderful day“, en þessi mynd var tekin upp áður en Þorvaldur féll frá, en hún var klippt eftir missinn. „Ég var að vinna með klipparanum í Belgíu sem vissi ekkert um minn missi og ég vildi heldur ekki blanda því inn í okkar samvinnu. En það var hann sem stakk uppá titilinn „Gone“, sem er svolítið merkilegt. Hann stakk einnig uppá að setja tóma ramma inná milli „sena“ sem gaf okkur spurninguna er hann þarna eða ekki?“

Nýja verkið „Journey“ er sýnt í gallerí Flæði á Vesturgötunni milli 12-18. Orðið Journey þýðir auðvitað ferðalag en það er líka hægt að lesa sem samsett úr orðunum jour (dagur á frönsku) og ney (huggun á hebresku). Svo er íslenski titillinn Rétt að byrja. „Þú verður á þessu ferðalagi fram til þíns dags en það sem ég vildi líka benda á er að þegar þú missir einhvern ertu bara rétt að byrja. Svo ertu á þessu ferðalagi alla ævi.“

„Ég er uppi á þaki“

Sjöunda nóvember verður opnuð yfirlitssýning Þorvaldar í Hafnarborg, myndlist, uppákomur og margt fleira verður á safninu fram í lok Febrúar næstkomandi. Yfirlitssýningin verður með eldri og svo glæný verk sem voru að koma að utan. Verk sem hann var að vinna rétt fyrir sinn dag. Þarna munum við upplifa, myndverk, myndbandsverk, skúlptúra og skrif, þar sem maður getur sest niður með kaffibolla og flett uppí stráknum. Hann sat oft úti á þaki í Antwerpen og heyrði því ekki í mér þegar ég kallaði svo hann bjóð til miða sem hann setti á handriðið og á stóð: Er uppi á þaki,“ segir Helena. Þessi eða eitthvað svipað verður uppi við á sýningunni eins og hann væri ekki langt undan.

En man Helena hvenær hún fór fyrst að hlæja eftir að Þorvaldur dó? „Ég veit ekki hvort það hafi gerst enn,“ svarar hún eftir nokkra umhugsun. En gleðitilfinningu finnur hún stundum, ekki síst í minningum með honum. Listin hjálpar henni og vinir hennar sömuleiðis.

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Helenu Jónsdóttur í Segðu mér á Rás eitt.

Hægt er að hlýða á viðtalið í heild sinni hér í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Hann spurði: „Er ást?“ Hún svaraði: „Alltaf“