Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Flókið að tryggja að bóluefni nýtist

23.10.2021 - 07:18
Bóluefni Pfizer og BioNTech. - Mynd: EPA-EFE / EPA
75% landsmanna eru fullbólusett við COVID-19 og af tólf ára og eldri er hlutfallið farið að nálgast 90%. Um 560 þúsund skömmtum af bóluefnum hefur verið sprautað í landsmenn þegar allt leggst saman, efnum frá Pfizer, Moderna, AstraZeneca og Janssen. Fljótt á litið var samið um kaup á um 1.250 þúsund skömmtum af bóluefnum fyrir grunnbólusetning og þeir skammtar duga til að bólusetja rúmlega 600 þúsund manns. Nú er unnið að því að koma umfram skömmtum í brúk.

„Við erum  í forréttindstöðu og margar þjóðir öfunda okkur af þessu“ segir Bjarni Sigurðsson lyfjafræðingur í heilbrigðisráðuneytinu, sem tekið hefur þátt í norrænu samstarfi og fólki finnist þetta góður árangur bæði við skipulagninguna og svo hin almenna þáttaka í bólusetningum.  Það hafi orðið Íslendingum til happs að taka þátt í samstarfi norrænu ríkjanna og við Evrópusambandið um útvegun bóluefna; taka þar þátt í fjórum samningum og geta bólusett svo marga. 

Í óvissunni var reynt að semja bara um sem flesta skammta

Í vetur þegar fréttir af bóluefnum og þróun þeirra voru hvað mest áberandi kepptust stjórnvöld um að útvega bóluefni handa landsmönnum í hverju landi. Undanfarið hefur verið gagnrýnt að auðugri þjóðir hafi sölsað undir sig bóluefni umfram þörf, á kostnað þeirra fátækari. Í sumum löndum er ekki búið að bólusetja nema lítinn hluta landsmanna. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hafði sett það markmið að í öllum ríkjum yrði búið að fullbólusetja 10% um síðustu mánaðamót en því marki náðu 50 lönd ekki. Heildarhlutfallið í Afríku til dæmis var þá undir 5%. Íslensk stjórnvöld sömdu um kaup á bóluefni umfram þörf. Bjarni segir það meðal annars hafa verið gert þegar ekki var ljóst hvaða bóluefni myndu gagnast, og hvort þau kæmust yfir höfðuð í gegnum rannsóknir og fengju markaðsleyfi. Nú sé það siðferðileg skylda að koma bóluefnum til skila þar sem þau nýtist.

Aðallega horft til COVAX

Íslendingar taka þátt í COVAX, samstarfi hátt í 200 ríkja sem á að tryggja jafnari dreifingu bóluefna til fátækari ríkja. Þegar hafa verið gefnir um 126 þúsund skammtar af AstraZeneca-bóluefni sem Íslendingar höfðu tryggt sér í gegnum það samstarf. Þeir skammtar fóru til Fílabeinsstrandarinnar og Ghana. Bjarni segir að afgangur af Jansensamningum verði um 150 þúsund skammtar og fari allir inn í COVAX samstarfið. Efni frá Pfizer hefur ekki verið hægt að gefa i gegnum COVAX og þar er ekki tekið við efni sem búið er að senda til landsins. Um 100 þúsund skammta frá Pfizer, sem eru komnir hingað á að gefa til Tælands. Það er ekki einfalt mál að koma slíku áleiðis, því bóluefnið er mjög viðkvæmt. Það verður að geyma við um 80 stiga frost og aðfangakeðjan viðkvæm segir Bjarni.

Enn samið um kaup á bóluefnum

Bólusetning er framahldsverkefni og óljóst hvernig kórónuveiran þróast. Þó er ljóst að á meðan ekki er búið að bólusetja allan heimnn eru vaxtarskilyrði fyrir ný afbrigði veirunnar. Ekkert vitað hvort þau verða skæðari eða veikari en það sem menn glíma við nú. Gerðir hafa verið framhaldssamningar við Pfizer um bólefnisskammta sem verða afhentir á næsta ári og því þarnæsta auk samningar við Sanofi/Glaxo Smith Kline og Novovax.