Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Baldwin hélt sig handleika óhlaðna byssu

Mynd með færslu
 Mynd: News Nation/Shutterstock - RÚV
Bandaríska leikaranum Alec Baldwin var sagt að byssan væri óhlaðin sem skot hljóp úr og varð kvikmyndatökumanninum Halyna Hutchins að bana á fimmtudag. Vitni greina frá þessu.

Eiðsvarin vitni segja að aðstoðarmaður hafi afhent leikaranum byssuna með þeim orðum að hún væri „köld“, eða óhlaðin. Bandaríski miðillinn Santa Fe New Mexican greinir frá þessu.

Atvikið varð í Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum á tökustað vestrans Rust sem Baldwin framleiðir og leikur aðalhlutverkið í. Kúla úr byssunni hæfði Hutchins í brjóstið en Joel Souza, leikstjóri myndarinnar, sem stóð fyrir aftan hana særðist.

Samkvæmt upplýsingum lögreglu í Santa Fe hefur enginn verið ákærður eða handtekinn vegna atviksins en Baldwin hafi af sjálfsdáðum gefið sig fram og svarað öllum spurningum greiðlega. 

Upptökum á myndinni hefur verið frestað en fréttir hafa borist af bágum vinnuaðstæðum á tökustað. Í Los Angeles Times er greint frá því að minnst sex starfsmenn hafi yfirgefið svæðið í mótmælaskyni.

Hutchins er sögð vera ein þeirra sem krafðist bættra aðstæðna á tökustað. Eins er fullyrt að minnst þrisvar hafi skot óvænt hlaupið úr leikmunabyssum en framleiðendur myndarinnar hafa ekki enn brugðist við þeim ásökunum að sögn AFP-fréttaveitunnar.