Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Þetta er ekki hræðsluáróður“ segir Þórólfur

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Sóttvarnalæknir segist ekki vera með hræðsluáróður þegar hann vari við því að kórónuveirufaraldrinum sé ekki lokið. Smitum í nágrannalöndum hafi fjölgað mjög, mánuði eftir að öllum sóttvarnatakmörkunum var aflétt. „Covid er ekki búið. Það getur enn leikið okkur grátt ef við höldum ekki rétt á spöðunum. Og: þetta er ekki hræðsluáróður,“ segir sóttvarnalæknir.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var með erindi á námsstefnu slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í morgun. Hann segir að kórónuveirufaraldurinn hafi verið nokkuð stöðugur að undanförnu.

Kúrfan á uppleið

„En við erum þó að sjá vísbendingar um hægfara aukningu myndi ég segja. Kúrfan er að fara upp á við myndi ég segja.  Í gær voru t.d. 66 sem greindust innanlands. Við höfum líka verið að greina nokkurn fjölda á landamærum, allt upp í 10 á dag. Það er bara dágóður fjöldi þegar við erum að fá 10 ný veiruafbrigði á hverjum degi sem koma inn í samfélagið,“ segir Þórólfur.

Mikil fjölgun smita í nágrannalöndum

Hann leggur áherslu á að faraldrinum sé ekki lokið og nauðsynlegt sé að hafa sóttvarnaaðgerðir í gildi. Hann bendir á að rúmur mánuður sé frá því að öllum aðgerðum var hætt í Danmörku.

„Á þeim tíma og lengi vel voru þeir að greina 300 á dag. Svo hljóp þetta upp í 6-700 á dag og núna síðstu 2 daga hefur þetta verið um 1300 á dag og það er aukning á innlögnum. Þannig að hvað gerist núna á næstunni? Er þetta að koma í bakið á Dönum? Ég vona ekki en það gæti gerst,“ segir Þórólfur.

Þá hafi smitum fjölgað í mörgum Evrópuríkjum. 

„Covid er ekki búið. Það getur enn leikið okkur grátt ef við höldum ekki rétt á spöðunum. Og: þetta er ekki hræðsluáróður,“ segir Þórólfur.

 

 

Með þessu virðist Þórólfur m.a. að vera að svara ásökun Hildar Björnsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem hefur sakað Þórólf um „tilhæfulausan hræðsluáróður“.

10 manns fengið covid tvisvar sinnum

Þórólfur segist líta svo á að núna séu Íslendingar staddir í þriðju bylgju faraldursins en ekki þeirri fjórðu. Í þessari bylgju hafi helmingur þeirra sem hafa smitast verið fullbólusettur. „Þannig að þegar menn eru að tala um að nú getum við hætt öllu af því að við erum öll fullbólusett. Það er bara ekki þannig, því miður,“ segir Þórólfur. Það eru 3-4 sinnum meiri líkur á því að óbólusettur einstaklingur smitist af covid heldur en fullbólusettur. Það eru 5-6 sinnum meiri líkur á því að óbólusettur einstaklingur leggist inn á sjúkrahús vegna covid en fullbólusettur. Þá hafa tíu hér á landi smitast tvisvar sinnum af kórónuveirunni. Um 500 mismunandi afbrigði af veirunni hafa greinst hér á landi. Rúmlega 2000 manns hafa smitast af afbrigðinu sem kennt er við Bankastræti Club.