Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Telur aldrei hafa verið sakfellt fyrir að byrla ólyfjan

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Umræða á samfélagsmiðlum um byrlun svokallaðra nauðgunarlyfja getur bent til þess að slíkt sé að færast í aukana, að sögn Ævars Pálma Pálmasonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns á kynferðisbrotadeild lögreglunnar. Hann segist ekki vita til þess að nokkurn tímann hafi verið sakfellt fyrir að fólki sé byrluð ólyfjan á Íslandi.

„Ég veit ekki til þess það hafi fallið dómur, eða ekkert sem ég fann í fljótu bragði, þar sem hefur verið sakfellt fyrir byrlun. En það hefur komið upp og verið nefnt í rannsóknum og í meðferð fyrir dómi að það hafi verið grunur um svoleiðis,“ segir Ævar. Byrlun er því oft nefnd sem hluti af kynferðisbrotamálum, en ekki hefur verið sakfellt fyrir það sérstaklega að byrla einhverjum ólyfjan.

Eigandi skemmtistaðar sagði í viðtali við Morgunblaðið í dag að byrlunarfaraldur geisaði í Reykjavík. Ævar segir lögregluna ekki taka undir þessi ummæli, en útilokar þó ekki að aukning hafi orðið, þó tilkynningum hafi ekki fjölgað.

Margt sem fælir brotaþola frá því að kæra

Ævar segir þessi mál flókin á ýmsan máta. Erfitt getur reynst að greina nauðgunarlyf í blóði, mörg þeirra hverfi úr blóðinu fljótlega eftir inntöku eða hreinlega greinist ekki í hefðbundnu blóðsýni. Að auki gerir það vitanlega erfitt fyrir að brotaþolar þjást oft af minnisleysi og eru óvissir um hvað hafi komið fyrir.

„Fólk getur verið svolítið í lausu lofti. Það veit ekki hvað hefur gerst eða áttar sig ekki endilega á því að þeim hafi verið byrlað kannski fyrr en löngu, löngu seinna. Það vantar kannski bara kafla í líf þess“ segir Ævar.

Erfitt að segja hvort sé aukning eða vakning

„Miðað við umræðu á samfélagsmiðlum þá er mögulega auking á byrlun eða í það minnsta vakning. Að fólk er farið að tala meira um þetta og fólk að rifja upp eldri atvik jafnvel,“ segir Ævar.

Ævar segir að skemmtanalífið sé að taka við sér eftir langt hlé vegna heimsfaraldursins og það gæti einnig skýrt umræðuna að einhverju leyti.

Ekki verið byrlað hérlendis með sprautustungum

Sérstakan óhug vakti þegar fréttir bárust frá Bretlandseyjum um að konum hefðu verið byrluð slík lyf með sprautustungum. Slíkt hefur þó ekki ratað inn á borð lögreglunnar hérlendis.