Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Stefnum á fyrsta sæti í riðlinum"

Mynd: Mummi Lú / Mummi Lú

„Stefnum á fyrsta sæti í riðlinum"

22.10.2021 - 11:08
Alexandra Jóhannsdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins, er spennt fyrir leiknum gegn Tékklandi í kvöld. Hún segir að íslenska liðið þurfi að pressa á réttum augnablikum og sýna vilja til að halda boltanum innan liðsins til að eiga sem besta möguleika á sigri.

Hún segir tékkneska liðið nokkuð fast fyrir en telur að leikstíllinn henti einmitt leikmönnum Íslands vel. „Við erum flestar líkamlega sterkar og töpum ekki mikið af einvígum,” segir Alexandra.

Ísland tapaði gegn Evrópumeisturum Hollands í fyrsta leik og Alexandra segir það hafa verið mikil vonbrigði. „Drullusvekkjandi að fá ekki meira út úr þeim leik. Við höfum alveg átt betri leiki og gerum okkur alveg grein fyrir því. En undankeppnin er bara rétt að byrja og við tökum þær í næsta leik,” segir Alexandra.

Eftir tapið gegn Hollandi má Ísland ekki við frekari áföllum og hvert stig afar mikilvægt í baráttunni um sæti á HM. „Allir leikir mikilvægir í þessari undankeppni. Hvert stig skiptir máli og við stefnum á fyrsta sæti í riðlinum og komast á HM. Þá skiptast öll stig máli,” segir Alexandra. 

Hún segir að leikmenn liðsins hafi sett ákveðið markmið áður en undankeppnin hófst. „Við settum okkur markmið að komast á HM og þurfum að gera allt til að ná því,” segir Alexandra.

Leikur Íslands og Tékklands hefst klukkan 18:45 og verður í beinni útsendingu á RÚV. Upphitun hefst með HM stofunni klukkan 18:10.