Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Segir Rauðagerðismálið eitt stærsta klúður lögreglu

22.10.2021 - 09:36
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Gígja Gunnarsson - RÚV
Steinbergur Finnbogason, lögmaður Íslendingsins sem var í haldi í tvær vikur vegna Rauðagerðismálsins, segir rannsókn lögreglu á málinu eitt umfangsmesta klúður í sögu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Brotið hafi verið á réttindum fjölmargra við rannsókn málsins.

Angjelin Sterkaj var í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir morðið á Armando Bequirai. Sambýliskona hans og tveir aðrir voru einnig ákærð en þau voru öll sýknuð. Talið var ósannað að þau hefðu vitað eða mátt vita að Angjelin myndi svipta Armando lífi, en lögregla hafði lagt fram ýmsar kenningar um að svo væri. Héraðsdómur gerði sérstakar athugasemdir við skjal sem ákæruvaldið lagði fram og ber heitið „Samantekt rannsóknardeildar um rannsókn málsins“. Verjendur sakborninganna gagnrýndu þetta skjal harðlega í réttarhöldunum og Héraðsdómur tekur að nokkru leyti undir gagnrýni þeirra. Í skjalinu sé meðal annars að finna kenningu, óháða framburði sakborninga. Dómurinn telur skjalið brot á meginreglu um hlutlægnisskyldu lögreglunnar og að slíkt sé ámælisvert.

Steinbergur segir í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag að rannsóknin sé klúður, ekki aðeins vegna sýknudómanna „heldur einnig vegna augljósrar vandlætingar dómarans sem telur vinnubrögð lögreglunnar ámælisverð,“ eins og segir í greininni. Aðalheiður Ámundadóttir, fréttastjóri á Fréttablaðinu, talaði á svipuðum nótum og Steinbergur í Kastljósi í gærkvöld. Hún sagði málið klúður af hálfu lögreglu og niðurstaðan hlyti að vera áfall. Mál ákæruvaldsins hefði ekki verið sannfærandi. 

Í ákærunni var sagt að morðið hefði verið þaulskipulagt af fjórmenningunum. Þau hefðu ýmist vaktað bifreiðar fórnarlambsins, sent skilaboð sín á milli, ekið Angjelin að heimili fórnarlambsins og frá því, verið með honum þar sem hann losaði sig við morðvopnið og þau vitað af ódæðinu án þess að gera lögreglu viðvart. Saksóknari sagði að um skipulagða aftöku hefði verið að ræða og að Angjelin ætti að fá 18 til 20 ára fangelsi. Hin þrjú ættu ekki að fá vægari refsingu en 5 ár. Það fór ekki svo og Héraðsdómur sýknaði þremenningana en dæmdi Angjelin í 16 ára fangelsi.