Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Sannfærandi íslenskur sigur á Tékklandi

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Sannfærandi íslenskur sigur á Tékklandi

22.10.2021 - 20:40
Íslenska kvennalandsliði í knattspyrnu mætti Tékklandi í öðrum leik liðsins í undankeppni HM 2023. Ísland vann sannfærandi 4-0 sigur og sótti þar með sín fyrstu stig í undankeppninni.

Fyrsta markið kom strax á 12. mínútu en þá var það Berglind Björg Þorvaldsdóttir sem laumaði boltanum í markið sem var þó á endanum skráð sem sjálfsmark á markvörð Tékka. Staðan var 1-0 í hálfleik og á 59. mínútu skoraði Dagný Brynjarsdóttir gott skallamark eftir fyrirgjöf frá Öglu Maríu Albertsdóttur. 

Svava Rós Guðmundsdóttir kom inn á sem varamaður á 75. mínútu og var aðeins sex mínútur að skora mark eftir að boltinn barst til hennar inni í teig frá Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur. Gunnhildur Yrsa var svo sjálf á ferðinni tveimur mínútum seinna þegar góð fyrirgjöf Guðnýjar Árnadóttur endaði hjá henni. Lokatölur 4-0 og fyrstu stigin í undankeppninni staðreynd.

Ísland leikur í C-riðli en sigurvegari riðilsins mun fara beint áfram í lokakeppnina. Liðið í öðru sæti kemst svo í umspil. Hér fyrir neðan má sjá stöðuna í riðli Íslands eftir leiki kvöldsins.

Lið Leikir Sigrar Jafntefli Töp Markatala Stig
Holland 3 2 1 0 +10 7
Tékkland 3 1 1 1 +4 4
Hvíta-Rússland 1 1 0 0 +3 3
ÍSLAND 2 1 0 1 +2 3
Kýpur 3 0 0 3 -19 0