Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ósátt við að þurfa að aka 18 kílómetra með ruslið

22.10.2021 - 15:58
Mynd með færslu
 Mynd: Ágústa Ágústsdóttir/Faceboo
Bóndi í Kelduhverfi íhugar að fara að brenna rusl heima á bæ, eftir að sveitarfélagið fjarlægði ruslagám í grennd við heimili hennar. Formaður framkvæmda- og skipulagsráðs Norðurþings, segir að verið sé að bæta þjónustuna með stærra og betra gámaplani fjær bænum. Ekki sé óalgengt að bændur þurfi að aka töluverðan spöl með sorp.

Ágústa Ágústsdóttir, er bóndi á bænum Meiðavöllum í Kelduhverfi, skammt frá Ásbyrgi, og rekur þar ferðaþjónustu. Hún og aðrir í grenndinni hafa í gegnum tíðina losað rusl í gám skammt frá, en nú hefur hann verið fjarlægður. Í stað þess að fara um það bil átta kílómetra með óflokkað sorp, þarf hún nú að að aka töluvert lengra. „Þetta eru þá rúmlega 18 kílómetrar sem ég þarf að keyra upp á hvern dag þegar meira er að gera,“ segir Ágústa.

Sækja flokkað sorp en ekki óflokkað til urðunar  

Hún segir þetta hafa í för með sér mikinn kostnað og bensíneyðslu enda oft mikið sem falli til á sumrin þegar ferðaþjónustan standi í blóma og ekki gott að safna sorpinu upp með tilheyrandi fnyk og aðdráttarafli fyrir mýs og rottur.

Mynd með færslu
 Mynd: Ágústa Ágústasdóttir/Facebo
Ágústa leigir út gistiaðstöðu til ferðamanna.

„Kaldhæðnin í þessu finnst mér er að þeim finnst í lagi að skella heim á hvern einasta bæ í sveitarfélaginu flokkunartunnum sem er svo sendur bíll einu sinni í mánuði til að tæma en hin hefðbundna sorptunna sem er við hliðina á þeim, við þurfum að taka pokann upp úr þeim og keyra þessa miklu vegalengd,“ segir Ágústa sem hefur áhuga á pólitík og skipaði fjórða sæti á lista Miðflokksins í Norðausturkjördæmi, fyrir Alþingiskosningarnar í haust. 

Ágústa vakti athygli á málinu á Facebook og hafa yfir fimmhundruð manns deilt innleggi hennar. Hún segist hafa fengið þau svör frá verktakanum að gámnum hafi verið ofaukið, því er hún ósammála, og bendir á að fleiri ferðaþjónustubændur í grenndinni noti gámana, að ógleymdum túristunum. Þá segir hún vel hægt að nota sandplan hinum megin við veginn undir gáminn.

Hafnaði beiðni um nýjan gám

Hjá sveitarfélaginu Norðurþingi segist Ágústa hafa mætt litlum skilningi og ekki fengið neinar haldbærar skýringar, sveitarfélagið hafnaði svo beiðni hennar um að setja upp nýjan gám á sama stað. 

Hún segir þessa fækkun gáma ýta sér út í það að fara að brenna rusl heima, eins og tíðkaðist víðsvegar í sveitum hér áður fyrr. Það sé lítill munur á því og að aka með það alla þessa leið, þess bíði bara urðun. Í dag er sorpbrennsla heima á bæjum að vísu óheimil. 

Byggja upp stærri gámastöð lengra í burtu

Benóný Valur Jakobsson, formaður Skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings og fulltrúi Samfylkingar í sveitarstjórn, segir að Vegagerðin hafi fjarlægt stæðið fyrir gáminn, því hafi sveitarfélagið ekki átt annarra kosta völ en að taka hann.

Verið sé að útbúa tvær stærri og betri gámastöðvar nokkuð fjær og ráðið hafi verið einróma í þeirri ákvörðun sinni að hafa þetta svona. Hann segist ekki vita hvort auðsótt væri að nota sandplanið sem Ágústa nefnir sem plan undir gáminn, enda hafi hann ekki séð umrætt gámasvæði. 

Ekki óalgengt að þurfa að aka langt

Benóný segir að stefnt sé að því að hafa ekki lengra en 12-13 kílómetra á milli gáma en það sé ekki óalgengt í sveitum að aka þurfi langar vegalengdir með sorp. Hann segir að ekki hafa borist kvartanir frá fleiri íbúum en ábúendur á Meiðavöllum þurfi vissulega að aka lengst allra í hverfinu.

Hann útilokar ekki að gámurinn í grennd við bæinn skjóti aftur upp kollinum síðar, enda sveitarstjórnarkosningar næsta vor og engin leið að segja til um hvað ný sveitarstjórn taki sér fyrir hendur, en næsta mál á dagskrá þessarar stjórnar sé að klára nýju plönin tvö.