
Ólíklegt að púðurskot hafi verið í byssu Baldwins
Kvikmyndatökumaðurinn Halyna Hutchins lést af völdum skotsára við tökur á kvikmyndinni Rust í Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum í gær. Alec Baldwin, sem leikur aðalhlutverk myndarinnar, hleypti skotinu af að sögn lögreglunnar. Leikstjórinn Joel Souza særðist einnig en hann hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi.
Baldwin hleypti af byssu úr leikmunadeild myndarinnar, sem er vestri og gerist í kringum 1880. Talsmaður Baldwins sagði í dag að leikarinn hefði skotið úr byssu hlaðinni púðurskotum en eitthvað hefði farið úrskeiðis. Sjálfur hefur Baldwin harmað atvikið í færslu á Twitter. Hann segist hafa verið í sambandi við eiginmann Hutchins og að hann hafi boðið honum og fjölskyldunni stuðning.
1-
There are no words to convey my shock and sadness regarding the tragic accident that took the life of Halyna Hutchins, a wife, mother and deeply admired colleague of ours. I'm fully cooperating with the police investigation to address how this tragedy occurred and— AlecBaldwin(HABF) (@AlecBaldwin) October 22, 2021
Lögregla rannskar hvers konar skotfæri voru notuð í byssuna. Við tökur á kvikmyndum eru alla jafna notuð púðurskot.
Skammbyssa eða riffill
„Þetta var líklega skammbyssa eða riffill sem var verið að nota. Miðað við að það eru tveir sem særast þá myndi ég halda að þetta væri skammbyssa sem hefði verið hleypt af tveimur skotum á sinn hvorn aðilann,“ segir Áki Ármann Jónsson, formaður Skotvís, félags skotveiðimanna. Souza varð fyrir skoti í öxl en Hutchins í maga. Áki segir mögulegt að eitt og sama skotið hafið hæft þau bæði. „Ef hún hefur staðið fyrir aftan hann þá er möguleiki að það hafi aðeins komið í öxlina á honum og svo skotist í magann á henni,“ segir Áki.
Það áttu að vera púðurskot í þessari byssu. Geta þau hæft fólk þannig að það deyr?
„Það á ekki að vera mögulegt. Það á bara að vera púður í þeim skotum og ekki alvöru kúlur sem geta farið úr hlaupinu. Þannig að það kemur bara reykur og hvellur og ekkert annað,“ segir Áki Ármann.
Myndirðu segja að það væru mestar líkur á að það hafi verið alvöru skot í þessari byssu?
„Mér finnst það langlíklegast miðað við lýsingarnar, að menn hafi óvart sett alvöru skot í,“ segir Áki.
Aldrei að beina skotvopni að manneskju
Skotvís hefur kennt leikurum að meðhöndla skotvopn. Hvað hafið þið haft að leiðarljósi í þeirri kennslu?
„Það er náttúrulega að beina aldrei hlaupinu að neinum og meðhöndla þau alltaf eins og þau séu hlaðin,“ segir Áki.
Ekki einsdæmi
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem bani hlýst af byssuskoti við gerð bíómyndar. Þannig lést Brandon Lee, sonur Bruce Lees, þegar hleypt var af byssu sem í áttu að vera púðurskot en reyndust vera alvöru skot. Í ljós kom að áður en hið banvæna skot hljóp úr byssunni höfðu áður verið alvöru skot sem hleypt hefði verið af. Eitt skotið hafði orðið eftir í skothylkinu og þegar hleypa hafi átt púðurskoti úr byssunni hefði alvöru skotið hlaupið af.
Einnig lést leikarinn Jon-Erik Hexum þegar hann beindi byssu með púðurskotum að gagnauga sínu en höggið sem kom þegar hann hleypti af varð honum að aldurtila.