Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hófstilltari hækkanir á höfuðborgarsvæðinu

22.10.2021 - 11:25
Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir - RÚV
Íbúðir á höfuðborgarsvæðinu hækkuðu að meðaltali um 1,2% milli ágúst- og septembermánaðar. Lítill munur er á fjölbýli og sérbýli, íbúðir í fjölbýli hækkuðu um 1,2% og sérbýli um 1,3%. Þetta kemur fram í nýjum tölum Þjóðskrár Íslands. Vegin árshækkun mælist nú 16,4%. Árshækkun sérbýlis mælist ívið hærri en fjölbýlis, 21,1% á móti 15,2.

Í nýrri hagsjá hagfræðideildar Landsbankans kemur fram að hækkunin nú sé aðeins hófstilltari en undanfarna mánuði. Frá því í mars hafi mælst skarpar verðhækkanir, að jafnaði 1,8%. Enn sé þó talsvert í að ástandið komist í sama horf og fyrir heimsfaraldurinn.  Eftirspurn eftir húsnæði hafi aukist mikið í kjölfar vaxtalækkana síðasta árs og viðbúið að mati bankans að draga muni úr eftirspurn eftir því sem vextir hækka. 

Sjá einnig: Allir bankarnir búnir að tilkynna vaxtahækkanir 

Spá hækkandi vöxtum

Hagfræðideild Landsbankans gaf í vikunni út þjóðhags- og verðbólguspá til ársins 2024 þar sem gert er ráð fyrir að Seðlabankinn hækki stýrivexti úr 1,5% upp í ríflega 4% á næstu tveimur árum. Sú þróun myndi að mati bankans slá á eftirspurn á íbúðamarkaði, enda muni hærri vextir verða til þess að færri eigi ráð á því að festa kaup á húsnæði.