Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hagsmunasamtök taki ekki þátt í umræðu um verðlagningu

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Samkeppniseftirlitið brýnir fyrir forsvarsfólki hagsmunasamtaka í atvinnulífinu að taka ekki þátt í umfjöllun um verðlagningu eða markaðshegðun fyrirtækja. Í tilkynningu eftirlitsins er slík umfjöllun hagsmunasamtaka vegna yfirvofandi verðhækkana sökum hækkunar hrávöruverðs gagnrýnd. Hækkun aðfanga eigi ekki sjálfkrafa að hækka vöruverð.

Samkeppniseftirlitið segir ákvæði samkeppnislaga setja hagsmunasamtökum skorður við hagsmunagæslu sem þurfi því að fara varlega þegar umræða þeirra og fræðsla geti haft áhrif á markaðshegðun.

Þátttaka í umræðu um verð sé einkum varhugaverð og ætti ekki að gerast. Það eigi einkum við á fákeppnismarkaði og þegar yfir vofi efnahagserfiðleikar. Fjölmiðlar hafi fjallað um yfirvorandi vöruskort, hækkandi hrávöruverð og aðrar afleiðingar faraldursins.

Samkeppniseftirlitið tilgreinir ummæli framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins í þeirri umfjöllun um mögulegar verðhækkanir vegna vöruskorts, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu um yfirvofandi hækkanir vegna hrávöruverðhækkana og formanna Bændasamtakanna um að hækkun verðs tilbúins áburðar geti leitt til hækkunar afurðaverðs. 

Það megi þeir ekki lögum samkvæmt og hvetur eftirlitið forsvarsmenn til að taka ekki þátt í umræðu tengdri verðlagningu eða markaðshegðun fyrirtækja. Skyldur stjórnenda fyrirtækja séu að taka sjálfstæðar ákvarðanir í rekstri, virk samkeppni eigi að þrýsta á stjórnendur til að auka hagræði og neytendur séu brýndir til að vera á varðbergi gagnvart verðhækkunum framundan.