Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjöldi lausra starfa til marks um bata atvinnulífsins

Vesturbyggð Patreksfjörður
Patreksfjörður Vesturbyggð sjávarútvegur fystihús fiskvinnsla atvinna höfnin bryggja bátar bátur skip
 Mynd: Jóhannes Jónsson
Forstjóri Vinnumálastofnunar segir tölur Hagstofunnar um laus störf á þriðja ársfjórðungi sýna batamerki í atvinnulífinu. Forseti ASÍ tekur undir það og segir áríðandi að vanda til verka við ráðningar og horfa til langtímaatvinnulausra varðandi lausnir.

Alls voru 8.380 störf laus á þriðja ársfjórðungi samkvæmt tölum Hagstofunnar. Undir lok september voru 10.428 atvinnulausir samkvæmt gögnum Vinnumálastofnunar.

Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar segir ekkert skrýtið við töluna og bendir á að þriðji fjórðungur falli á hásumar. Þá sé framboð starfa langmest á íslenskum vinnumarkaði. 

„Það eru kannski góðar fréttir hvað þetta eru mikil batamerki í atvinnulífinu. Ég held þetta sé ekki það að fólk vilji ekki vinna, fólk sem er að fá greiddar
atvinnuleysistryggingar er með allskonar menntun og allskyns bakgrunn og í alls konar aðstöðu.“

Drífa Snædal forseti ASÍ segir brýnt sé að vanda til verka við ráðningar, tryggja þurfi að fólk fái störf við hæfi. Eins þurfi að horfa til fólks sem lengi hefur verið án atvinnu. 

„Það sem við höfum lært af hruninu síðast og síðasta atvinnuleysisskeiði er að það er hópur sem þarf aukinn stuðning til að fara aftur í virkni eftir langvarandi atvinnuleysi. Og það er líka stórt verkefni sem bíður.“

Unnur segir að nú einbeiti Vinnumálastofnun sér að því að útvega fólki viðeigandi störf. Þegar hafi verið gerðir um sjö þúsund slíkir ráðningarsamningar. Tala Hagstofunnar um laus störf fari lækkandi með haustinu. 

„Ég vil nú meina það að atvinnuleysi hafi farið mjög hratt niður, hraðar en maður þorði að vona. Það er í kringum fimm prósent núna. Við finnum að það er mjög mikil eftirspurn eftir fólki núna í allskonar störf.“