Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fimm ferlega fín á föstudegi

Mynd með færslu
 Mynd: Koffee - West Indies

Fimm ferlega fín á föstudegi

22.10.2021 - 14:00

Höfundar

Að venju er fjölbreytnin í fyrirrúmi í Fimmunni og við byrjum á sálartónlist frá Kaliforníubandinu Gabriels, síðan er það blessað kántríið sem er teygt og togað af Hamilton Leithauser og Kevin Morby. Bandaríski jazztrommarinn Makaya McCraven tekur við og ætti að koma flestum á dansgólfið en Animal Collective nær að tæma það með tilraunarokki. Að lokum er það svo megakrúttið Koffee sem er með sjóðheitt á könnunni.

Gabriels - Love and Hate In a Different Time

Tríóið Gabriels kemur frá Los Angeles, sendi frá sér lagið Love and Hate In a Different Time í byrjun sumars og síðan hefur það mallað í rólegheitum. Upp á gamla mátann hafa Gabriels síðan tekið rúntinn með lagið og spilað það hjá helstu þáttastjórnendum. Það hefur vakið athyglina sem þetta frábæra lag á skilið.


Hamilton Leithauser & Kevin Morby - Virginia Beach

Tónlistarmennirnir Hamilton Leithauser úr Walkmen og Kevin Morby hafa mallað í indierokkinu í Bandaríkjunum undanfarna áratugi. Nú hafa þeir sent frá sér lagið Virginia Beach saman en þeir segja það tilraun sína til þess að gera myrkt kántrílag með lúmskum dansvænum takti.


Makaya McCraven - Sunset

Bandaríski jazztrommarinn og hljómsveitarstjórinn Makaya McCraven hefur sent frá sér einar tíu plötur og sú ellefta, Deciphering the Message, er á leiðinni. Hún inniheldur lagið Sunset sem er endurgerð á lagi lítt þekkta trompetleikarans Kenny Dorham frá 1961 og grúvar eins og andskotinn.


Animal Collective - Prester John

Tilraunarokksveitin Animal Collective rauf fimm ára þögn með laginu Prester John í vikunni. Lagið er með venjulegasta móti miðað við sveitina sem á það til að vera algerlega úti á túni. Það verður að finna á væntanlegri plötu sveitarinnar Time Skiffs sem kemur út í byrjun næsta árs og er þeirra ellefta á tæpum tuttugu árum.


Koffee - West Indies

Það er sjóðheitt á könnunni hjá Koffee þessa dagana eftir að hún sendi frá óð sinn til Karíbahafsins West Indies. Lagið verður að finna á fyrstu stóru plötu Koffee sem kemur í byrjun næsta árs en flestir þekkja hana eflaust fyrir lög sín Toast, Lockdown og fleiri sem slegið hafa hressilega í gegn.


Fimman á Spotify