Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ekki útilokað að tölvuþrjótar hafi náð í tölvupósta

22.10.2021 - 15:38
Mynd með færslu
 Mynd: Háskólinn í Reykjavík
Háskólinn í Reykjavík útilokar ekki að tölvuþrjótar hafi komist yfir tölvupósta starfsfólks. Skólinn ætlar ekki að borga lausnargjald til tölvuþrjóta.

Greiningarvinna eftir tölvuárás á póstþjón Háskólans í Reykjavík í síðustu viku hefur leitt í ljós að tölvuþrjótar gætu mögulega hafa komist yfir tölvupósta starfsmanna. Frá því árásanna varð vart hefur starfsfólk upplýsingatækni háskólans, ásamt sérfræðingum í netöryggismálum frá Syndis og Advania, unnið að því að greina hættu á gagnaleka og líklega atburðarás.

Nú liggur fyrir að hætta er á því að tölvuþrjótum hafi tekist að komast yfir pósta starfsmanna að hluta eða í heild.

„Enn sem komið er, er þó ómögulegt að segja til um hvort það hafi raunverulega gerst. Háskólinn telur mikilvægt að upplýsa um málið, með yfirliti um stöðuna, um mögulegar afleiðingar ef gagnaleki hefur orðið og til hvaða ráðstafana hefur verið gripið.“ segir í fréttatilkynningu frá skólanum.

Tölvuþrjótar réðust á póstþjón Háskólans í Reykjavík í síðustu viku og dulkóðuðu skrár. Talið er að árásin hafi valdið takmörkuðum skaða á einn póstþjón og tölvupóstar nemenda séu ekki undir, þar sem þeir eru geymdir í sameiginlegu skýi. Árásarmennirnir hóta því að birta tölvupóst starfsmanna, og krefjast lausnargjalds. Spilliforriti var komið fyrir á póstþjóni skólans í lok ágúst í að minnsta kosti fjóra daga. Árásin í seinustu viku stóð í tæpan sólarhring.

„Ef til kæmi að tölvupóstum starfsmanna yrði lekið á netið gæti það, miðað við reynslu annarra af slíkum tölvuglæpum, verið gert á ýmsan máta. Tölvupóstar gætu verið birtir á opnum vefsvæðum með leitarviðmóti, þeir gætu birst á hulduvefnum, starfsmenn og aðrir aðilar sem fjallað er um í tölvupóstum starfsmanna gætu fengið senda pósta með afritum af tölvupóstum og hótunum um leka ef lausnargjald væri ekki greitt o.s.frv.,“ segir í tilkynningunni.

Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík minnir á að ekki sé enn vitað hvort póstar hafi verið afritaðir en mikilvægt sé að sýna varfærni og hafa allt upp á borðum: 

„Þetta er óþægilegt fyrir okkur öll og mér þykir afar leitt að þessi staða sé uppi. Ég minni á að við vitum ekki hvort póstar voru afritaðir og þó svo væri, hvort einhver hyggist gera eitthvað við afritin. Við erum að vera varfærin og upplýsa um allt strax. Það, ásamt því að neita að borga lausnargjald og neita að skammast okkar fyrir að verða fyrir árás sem eru algengar og úti um allt, er það besta sem við getum gert í stöðunni og í bestu samræmi við það hvernig vinnustaður við viljum vera. Svo það er línan, auk þess að læra af reynslunni og styðja vel hvert við annað,“ segir Ragnhildur.