Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Biden heitir Taívönum fullum stuðningi

22.10.2021 - 04:55
epa09538165 US President Joe Biden (L) and first lady Jill Biden (R) walk on the South Lawn of the White House as they arrive from a trip to Baltimore; in Washington, DC, USA, 21 October 2021. President Biden traveled to Baltimore to participate in a town hall hosted by CNN.  EPA-EFE/Oliver Contreras / POOL
 Mynd: EPA-EFE - SIPA USA POOL
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, sagði afdráttarlaust já við að Bandaríkin kæmu Taívan til varnar ef Kínverjar réðust þangað inn. Taívanir líta á sig sem sjálfstætt ríki en Kínverjar telja eyjuna til héraðs í Kína. Biden sagði á fundi í sjónvarpssal sem sýndur var beint á CNN að Bandaríkin væru skuldbundin til þess að verja eyjuna.

Yfirlýsing hans er á skjön við langvarandi stefnu Bandaríkjanna um aðstoð við uppbyggingu varna Taívana, án skuldbindinga um að verja eyjuna.  Biden lét sams konar ummæli falla í viðtali við ABC sjónvarpsstöðina í ágúst. Þá sagði hann Bandaríkin hafa helga skuldbindingu um að verja bandamenn sína í NATO, auk Japans, Suður-Kóreu og Taívan.

Hvíta húsið sendi frá sér fréttatilkynningu fljótlega eftir ummæli Bidens þar sem greint var frá því að afstaða Bandaríkjanna gagnvart sjálfstjórnarhéraðinu Taívan hefði ekki breyst.

Biden var einnig spurður að því hvort Bandaríkin ættu eftir að halda í við öra hervæðingu Kínverja. Hann svaraði því eining játandi, og sagði að sama hvað Kína, Rússland eða önnur ríki ættu eftir að reyna, þá vissu þau að hernaðarmáttur Bandaríkjanna væri sá mesti í sögunni. Hann sagðist þó vilja forðast nýtt kalt stríð við Kína, en sagðist vilja koma stjórnvöldum í Peking í skilning um að Bandaríkin hörfuðu ekki.

Kínverjar hafa undanfarið aukið hernaðarbrölt sitt í nágrenni við Taívan. Þá bárust nýverið fregnir af tilraun Kínverja á nýju hljóðfráu flugskeyti sem getur borið kjarnaodd. Flaugin fór hring í kringum hnöttinn áður en hún lenti, en hæfði þó ekki tilraunaskotmark sitt. Bandaríkjamenn og Rússar vinna einnig að þróun hljóðfrárra vopna.