Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Trjáhringir renna stoðum undir Íslendingasögur

Mynd með færslu
Byggðin sem fannst á L´Anse aux Meadows hefur verið endurgerð. Svæðið er á heimsminjaskrá UNESCO. Mynd: Wikimedia Commons
Nýjar rannsóknir á fornminjum á Nýfundnalandi í Kanada benda til þess að norrænir menn hafi sest að vestanhafs fyrir þúsund árum. Aldursgreining á trjáhringjum leiðir þetta í ljós að sögn fréttastofu CNN.

Timbur sem notað var til að reisa hús nyrst á Nýfundnalandi gefur til kynna að víkingar hafi siglt langskipum sínum vestur um haf árið 1021. Leifar af höggnu timbri leiða þetta í ljós. Timbrið var höggvið með málmi, sem frumbyggjar Norður-Ameríku höfðu ekki aðgang að á þeim tíma. Timburleifarnar eru af þremur mismunandi trjátegundum. 

Ástæða þess að fornleifafræðingarnir gátu rakið ártalið út frá trjáhringjunum er sólinni að þakka. Gríðarmikill sólstormur árið 992 varð til þess að aldurshringir trjáa árið 993 skera sig verulega frá öðrum. Á trjáhringjum timbursins við L'Anse aux Meadows í Nýfundnalandi eru greinileg merki frá þessu fróma ári, auk 29 til viðbótar fram að berkinum. Þannig gátu fornleifafræðingarnir greint nákvæmlega hvaða ár timbrið var höggvið, hefur CNN eftir Margot Kuitems, vísindamanni við háskólann í Groningen í Hollandi.

Ómögulegt er þó að segja til um hversu tíðar ferðir norrænna manna voru til Norður-Ameríku, eða hversu lengi þeir dvöldu þar í einu. Þau gögn sem til eru benda til þess að dvölin hafi verið til skamms tíma. Vísbendingar eru þó um að víkingarnir hafi kannað aðstæður sunnar á meðan þeir voru í Ameríku.

Michael Dee, aðstoðarprófessor við ísótópa-aldursgreiningu í háskólanum í Groningen, segir niðurstöðu aldursgreiningarinnar að vissu leyti staðfesta sannleiksgildi Íslendingasagna á borð við Eiríks sögu rauða og fleiri sem segja frá siglingum þeirra vestur um haf. Hingað til hafa vísindamenn talið að norrænir menn hafi komið til Norður-Ameríku öðru hvoru megin við árið 1000. Niðurstaða aldurshringjarannsóknanna þýðir að sögn Dee að þeir hafi þá mögulega verið síðar á ferðinni, að þeir hafi farið nokkrar ferðir yfir lengri tíma, eða dvalið lengur en áður var talið. 

Hvað framhald rannsókna varðar segist Dee vilja kafa dýpra í sögu vesturferða norrænna manna. Nýjar rannsóknaraðferðir og handrit frá miðöldum geti hjálpað til við að skrá tímalínu norrænna manna í Norður-Ameríku, að sögn Dee. Niðurstöður aldursgreiningarinnar má finna í nýjasta hefti vísindaritsins Nature.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV