Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Það styrkir mann að grafa sig upp úr holunni

Mynd: Menningin / RÚV

Það styrkir mann að grafa sig upp úr holunni

21.10.2021 - 15:43

Höfundar

„Maður lærir mest í myrkrinu og sorginni,“ segir tónlistarkonan Bríet. Hún blæs til útgáfutónleika nýjustu plötu sinnar í Hörpu á föstudag. Mikil leynd hvílir yfir tónleikunum, sem verða í senn persónuleg upplifun, leikhús og tónlistarflutningur.

Tónleikarnir eru haldnir í tengslum við nýjustu plötu Bríetar sem nefnist Kveðja Bríet og kom út í fyrra. „Það eru alls konar töfrar sem gerast þegar maður ýtir bara á rec,“ segir Bríet. Platan hafi orðið til á fjögurra mánaða tímabili. „Þetta kom mjög náttúrulega.“

Meðal tónlistarfólks sem kom að gerð plötunnar var Rubin Pollock gítarleikari. „Það er eitt lag, Eltum sólina, við erum að byrja að deita þarna. Hann keypti kasettuupptökuvél, spilar á hana og ég er að flauta yfir. Þetta varð að fallegu mómenti sem mig langaði að hafa á plötunni.“ Meðal vinsælustu laga hennar eru Esjan og Rólegur kúreki sem hafa fengið milljónir spilana á Spotify.

„Ég vinn mest með Pálma Ragnari og við gerum þetta frá a-ö saman. Ég á til að stoppa mig af þegar ég er ein svo það er gott að vinna þetta saman. Hugmyndirnar koma mikið frá dagbókarfærslum. Þar er maður að skrifa fyrir sjálfan sig. Svo les ég það fyrir einhvern sem dregur það lengra. Það byrjar kannski á kaffihúsi þar sem maður sér einhvern tala við maka sinn og finnst það fallegt. Síðan manifestar maður það og fer í stúdíóið og fer að tala um það og þá verður sú mynd til oft.“

Heimurinn sem Bríet hefur skapað í kringum tónlistina ber skýr sérkenni hennar. Allt frá textum og búningum til förðunar og sviðsmyndar. Bríet hefur að auki fengist við ólík verkefni á sínum ferli, meðal annars leikið í kvikmyndinni Leynilöggu, stuttmyndinni Heartless og uppfærslu Þjóðleikhússins á Rómeó og Júlíu. Mikil leynd hvílir yfir útgáfutónleikum Bríetar í Hörpu. Þeir verða í senn persónuleg upplifun, leikhús og tónlistarflutningur.

„Þessi plata varð að þessu stóra listaverki sem ég bjóst ekki við. Þess vegna langar mig að gefa til baka þetta stóra listaverk sem ég ætla að gera í Hörpu. Ég er mjög spennt. Ég elska þessa tilfinningatengingu og samveru við fólkið í salnum og spjalla við það. Ég hef haldið marga 40 manna tónleika úti á landi en ég hef ekki haldið mína eigin stóru tónleika. Þetta eru fyrstu tónleikarnir mínir þannig séð. Þetta er frekar kreisí.“

Bríet birtist fólki sem manneskja með sterka jarðtengingu. Hún heldur sköpunarkraftinum lifandi með því að fara í sund og komast í aðstæður sem veita henni innblástur.

„Ég læri af því að fylgjast með,“ segir hún. „Ég reyni að gefa til baka. Það er svo mikið af hlutum sem skipta ekki máli og neikvæðni þarna úti. Ég reyni að halda mig fjarri því. Svo lengi sem það lætur mig vera hamingjusama, þá er ég sátt. Það að vera með einhverjum sem ég elska og elskar mann til baka þá er ég mettuð. Svo fer maður út fyrir og lærir mest, í myrkrinu og sorginni. Það styrkir mann, þegar maður grefur sig upp úr holunni og fær stærri vöðva. Það er hluti af ferðalaginu. Ég reyni að halda mig sáttri við það, þar sem ég er stödd í lífinu.“

Tengdar fréttir

Tónlist

Bríet forðast fólk sem brýtur hana niður

Tónlist

Bríet og Sturla Atlas frumflytja lag úr Rómeó og Júlíu

Tónlist

Listamenn sækist í gleði úr sorg

Tónlist

Skin og skúrir