Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Taldi sér ekki skylt að innsigla kjörgögnin

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi taldi sér ekki skylt að innsigla kjörgögnin frá því kjörfundi var frestað að morgni sunnudags þar til hann hófst aftur um hádegi og atkvæði voru talin að nýju. Þá sé ekkert athugavert við að formaður kjörstjórnar hafi verið einn með kjörgögnunum. Þetta kemur fram í svörum yfirkjörstjórnar við kærum og athugasemdum sem bárust undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar og birt eru á vef Alþingis.

Tólf kærur hafa borist frá bæði kjósendum og frambjóðendum vegna kosninganna og spjótin hafa helst beinst að því hvernig staðið var að talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi, hvernig kjörgögnin voru geymd og hvort talningamenn eða aðrir hafi haft aðgang að þeim eftir að þau voru talin. Í kærunum eru gerðar athugasemdir við að kjörgögnin hafi ekki verið innsigluð, ekki í læstu herbergi og kjörstjórnin og jafnvel fleiri hafi haft aðgang að þeim. Kjörstjórnin segir í svörum sínum að hún telji að farið hafi verið í einu og öllu að lögum varðandi framkvæmd kosninganna og við talningu. Ekkert sé fram komið sem bendi til að ágallar hafi verið á kosningunni sem geti leitt til ógildingar. 

Í kærunum er gagnrýnt að kjörgögnin hafi ekki verið innsigluð þegar talningamenn og meðlimir yfirkjörstjórnar héldu heim um morguninn.

„Fundi YK var frestað að morgni sunnudags og á meðan á fundarfrestun stóð telur YK að ekki hafi verið skylt að innsigla kjörgögn skv. 2. mgr. 104. gr. laga nr. 24/2000. Enda gat vel verið að YK þyrfti að meðhöndla kjörgögnin og hugsanlega að endurtelja þegar fundi yrði framhaldið,“

segir í svari við kæru Magnúsar Davíðs Norðdahl, oddvita Pírata í kjördæminu. Í málsgreininni sem vísað er til segir:

„Þá skal yfirkjörstjórn setja alla notaða kjörseðla undir innsigli og skal gildum og ógildum kjörseðlum haldið sér. Kjörseðlana skal geyma þar til Alþingi hefur úrskurðað um gildi kosninganna, sbr. 120. gr., enda sé þeirra eigi þörf vegna kæru sem beint hefur verið til lögreglustjóra. Að því búnu skal eyða kjörseðlunum og skrá yfirlýsingu um það í gerðabók yfirkjörstjórnar.“ 

Í mörgum kæranna er efast um að formaður yfirkjörstjórnar, eða aðrir í kjörstjórninni, hafi haft aðgengi að kjörgögnunum á meðan þau voru í geymslu. Í svörum við Kæru Lenyu Rúnar Taha Karim, frambjóðanda Pírata, er því svarað hvers vegna ákveðið hefði verið að telja fyrst atkvæði greidd Viðreisn, C lista, hvernig sú ákvörðun var tekin og hver hafi tekið hana. Í svari kjörnefndar segir að það hafi verið sameiginleg ákvörðun yfirkjörstjórnar. Þá er ítrekað að ekkert athugavert sé við að formaðurinn eða annar fulltrúi yfirkjörstjórnar kunni að hafa verið einn á þeim stað sem kjörgögn voru. Þá er fullyrt að það hafi verið í lagi með varðveislu kjörgagna og aðdróttununum um að formaðurinn hafi spillt kjörgögnum er harðlega mótmælt.