Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Svarar fullum hálsi og sakar frambjóðendur um lögbrot

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis, svarar þeim kærum sem hafa borist vegna Alþingiskosninganna í síðasta mánuði fullum hálsi í bréfi sem hefur verið birt á vef Alþingis. Sumir sem hafa kært kosninguna fá býsna kaldar kveðjur og frambjóðendur Viðreisnar og Pírata eru sakaðir um lögbrot í kærum sínum með því að bera yfirkjörstjórnina röngum sökum.

Tveir úr yfirkjörstjórninni, þau Bragi Axelsson og Katrín Pálsdóttir, stóðu ekki að svarinu. Þau töldu ekki rétt að tjá sig á meðan sakamál væri til meðferðar hjá lögreglustjóranum á Vesturlandi.

Í bréfinu er brugðist við hverri kæru, lið fyrir lið, og engan bilbug á formanni yfirkjörstjórnar að finna.  Hann bregst ókvæða við þeirri ásökun Guðmundar Gunnarssonar, frambjóðanda Viðreisnar, um að auðum kjörseðlum hafi verið breytt í seðil sem virðist gilt atkvæði eða að gildu atkvæði hafi verið breytt í ógilt.  Þessar aðdróttanir séu mjög alvarlegar, sérstaklega vegna þess að þær séu algerlega órökstuddar. „Í raun er um rangar sakargiftir að ræða sem eru refsiverðar.“

Í sama streng tekur Ingi í svari við kæru Lenyu Rúnar Taha Karim, frambjóðanda Pírata. Aðdróttunum hennar um að hann hafi spillt kjörgögnum er harðlega mótmælt enda séu engin rök færð fyrir þeirri fullyrðingu. „Raunar er um rangar sakargiftir að ræða sem eru refsiverðar.“

Katrín Oddsdóttir, lögfræðingur og formaður Stjórnarskrárfélagsins, fær kaldar kveðjur frá Inga.  Ekki sé orðum eyðandi á umfjöllun hennar um pólitísk tengsl hlutaðeigandi aðila. Það séu aðeins dylgjur og aðdróttanir sem í „raun gera það að verkum að það er í engu hægt að taka mark á því sem [hún] heldur fram.“

Ingi telur það í meira lagi undarlegt að slíkur málatilbúnaður sé hafður uppi af lögfræðingi og formanni Stjórnarskrárfélagsins „sem vill væntanlega láta taka sig alvarlega.“

Ingi bregst einnig við kæru Magnúsar Davíðs Norðdahl, oddvita Pírata í Norðvesturkjördæmi og þeirri fullyrðingu að hann hafi vantað örfá atkvæði að vera kjörinn þingmaður í kjördæminu. „Ekkert er ljóst hvernig [hann] fær þessa útkomu,“ segir í bréfinu og ekki sé ljóst á hverju útreikningur Magnúsar byggi. 

Í lok bréfsins segir Ingi síðan að yfirkjörstjórn telji sig hafa í einu og öllu farið að lögum varðandi framkvæmd kosninganna. Ekkert sé komið fram sem bendi til þess að slíkir ágallar hafi verið á kosningunni í Norðvesturkjördæmi sem leitt geti til ógildar þeirra.

Lögreglustjórinn á Vesturlandi hefur boðið allri yfirkjörstjórninni að ljúka máli sínu með sekt fyrir brot á kosningalögum.  Formaður yfirkjörstjórnar fékk hæstu sektina eða 250 þúsund en hinir 150 þúsund krónur.  Brotið snýst um að atkvæðin voru ekki innsigluð.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV