Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi en Píratar eru í sókn

21.10.2021 - 14:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 21,1 prósent, rúmum þremur prósentustigum minna en flokkurinn fékk í Alþingiskosningunum í síðasta mánuði. Fylgi Framsóknarflokksins eykst um eitt prósentustig frá kosningunum og mælist 17,9 prósent.

Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem var framkvæmd 12. til 18. október. Alls svöruðu 967 einstaklingar, 18 ára og eldri, könnuninni. Tekið er fram að vikmörk miðað við þúsund svarendur geti verið allt að 3,1 prósent.

Fylgi Vinstri grænna mælist 12,1 prósent en flokkurinn fékk 12,6 prósent í Alþingiskosningunum. Fylgi Pírata eykst um þrjú prósentustig frá kosningunum, og er nú 11,7 prósent, og fylgi Viðreisnar mælist 10 prósent samanborið við 8,3 prósent í kosningunum. Fylgi Flokks fólksins mælist 7,8 prósent, rúmlega prósentustigi minna en í kosningunum.

Miðflokkurinn næði ekki manni á þing samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar. Flokkurinn mælist með 3,2 prósent en fékk 5,4 prósent í kosningunum. Sósíalistaflokkur Íslands næði hins vegar manni inn á þing. Flokkurinn fékk 4,1 prósent í kosningunum en mælist nú með 5,5 prósent fylgi.

Þá hefur stuðningur við ríkisstjórnina aukist nokkuð. Hann mælist nú 57,5 prósent en var 51,6 prósent í síðustu könnun fyrir kosningar.

Fylgi stjórnmálaflokkanna

Flokkur Könnun MMR 12. - 18. október Úrslit Alþingiskosninganna
Sjálfstæðisflokkurinn 21,1% 24,4%
Framsóknarflokkurinn 17,9% 17,3%
Vinstri græn 12,1% 12,6%
Píratar 11,7% 8,6%
Samfylkingin 10,1% 9,9%
Viðreisn 10,0% 8,3%
Flokkur fólksins 7,8% 8,8%
Sósíalistaflokkurinn 5,5% 4,1%
Miðflokkurinn 3,2% 5,4%