Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Segir Rauðagerðismálið klúður af hálfu lögreglu

21.10.2021 - 21:47
Mynd: RÚV / RÚV
Aðalheiður Ámundadóttir, fréttastjóri á Fréttablaðinu, segir dóminn í Rauðagerðismálinu gríðarlega sannfærandi. Málið hafi verið klúður af hálfu lögreglu og niðurstaðan sé áfall fyrir hana.

Í dag var Angjelin Mark Sterkaj í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir morðið á Armando Bequirai í Rauðagerðirmálinu svokallaða. Angelin játaði verknaðinn eftir að lögreglan sýndi fram á sterk sönnunargögn við yfirheyrslur. Sambýliskona Angjelins og tveir aðrir voru einnig ákærð en þau voru öll sýknuð í Héraðsdómi.

Í ákærunni var sagt að morðið hefði verið þaulskipulagt af fjórmenningunum. Þau hafi ýmist vaktað bifreiðar fórnarlambsins, sent skilaboð sín á milli, ekið Angjelin að heimili fórnarlambsins og frá því, verið með honum þar sem hann losaði sig við morðvopnið og þau vitað af ódæðinu án þess að gera lögreglu viðvart. Sakssóknari sagði að um skipulagða aftöku væri að ræða og að Angjelin ætti að fá 18 til 20 ára fangelsi. Hin þrjú ættu ekki að fá vægari refsingu en 5 ár. Það fór ekki svo og Héraðsdómur sýknaði þremeningana en dæmdi Angjelin í 16 ára fangelsi.

„Mér finnst dómurinn gríðarlega sannfærandi. Hann er vel rökstuddur,“ segir Aðalheiður. „Lögreglan náði ekki að sanna málið gagnvart þessum þremur. Það liggja bara ekki fyrir sannanir gegn neinum þeirra og mál ákæruvaldsins bara er ekki sannfærandi,“ segir hún.

Hún segist hafa áhyggjur af því hvaða áhrif niðurstaðan hefur fyrir lögregluna, „svona klúður, af því að þetta er klúður.“ „Þetta er áfall fyrir þá. Þetta er áfall fyrir þá pólitískt og ég hef áhyggjur af því,“ segir Aðalheiður.

Hægt er að horfa á Kastljós kvöldsins í heild sinni í spilaranum hér að ofan.