Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Nýra úr svíni grætt í mann

Mynd með færslu
 Mynd:
Tilraun bandarískra vísindamanna við að græða nýra úr svíni tímabundið í manneskju gekk að óskum og er vísir að miklum framtíðarmöguleikum að þeirra mati. Nýrað var tekið úr sérræktuðu svíni, og grætt í heiladauðan mann í öndunarvél, með samþykki fjölskyldu mannsins.

Tilraunin stóð yfir í tvo daga, og var starfsemi nýrans á þeim tíma eins og hún átti að vera, það hreinsaði úrgang og bjó til þvag. AFP fréttastofan hefur eftir vísindamanninum Robert Montgomery að nýrað hafi jafnframt náð að lækka magn sameindarinnar kreatíníns, sem er mikilvægur vísir að heilbrigðu nýra. Magn kreatíníns var aukið í líkama mannsins fyrir tilraunina.

Sjúklingurinn sem fékk nýrað vildi verða líffæragjafi. Montgomery segir fjölskyldu hans hafa verið vonsvikna þegar í ljós kom að líffæri hans hentuðu ekki til líffæragjafa. Þeim varð því nokkuð létt þegar þau sáu aðra leið til þess að hann gæti aðstoðað aðra um að fá nauðsynleg líffæri. Slökkt var á öndunarvél mannsins og var úrskurðaður látinn að lokinni tilrauninni.

Fyrri rannsóknir sýna að nýru úr svínum geti virkað í öðrum prímötum en mönnum í allt að ár. Þetta er í fyrsta sinn sem tilraun er gerð á manneskju. Svínið sem nýrað var tekið úr er úr hjörð sem hefur verið erfðabreytt á þann hátt að gen sem framleiðir ákveðinn sykur er fjarlægt. Sykurtegundin veldur annars sterku ónæmisviðbragði í líffæraþega sem svo hafnar líffærinu.

Montgomery kveðst ætla að birta niðurstöður rannsóknar sinnar í vísindariti í næsta mánuði. Klínískar tilraunir gætu svo hafist á næstu tveimur árum að hans sögn. Aðrir vísindamenn tóku fréttunum af nýrnaígræðslunni með ákveðnum fyrirvörum, og bíða greinarinnar frá Montgomery að sögn AFP fréttastofunnar.

Langur biðlisti líffæraþega er í Bandaríkjunum. Alls bíða um 107 þúsund eftir líffæri, þar af um 90 þúsund eftir nýra. Sautján Bandaríkjamenn deyja á degi hverjum meðan þeir bíða eftir líffæragjöf.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV