Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Nefndin fundaði í 12. sinn - flókið mál segir formaður

Mynd: Hjalti Haraldsson / Skjáskot
Birgir Ármannsson, formaður undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa, segir flókið þegar framkvæmd kosningar er kærð af mörgum aðilum.

Þetta  var 12. fundur nefndarinnar en hlutverk hennar er að undirbúa rannsókn kjörbréfa og önnur álitamál sem upp kunna að koma í kosningum. Á fundinum voru tveir fulltrúar úr yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi, nefndin fundar aftur á morgun og þá verða hinir fulltrúarnir úr nefndinni, auk hluta þeirra tólf sem hafa kært framkvæmd talningarinnar í kjördæminu.

Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi og tveir aðrir fulltrúar svara kærunum í bréfi.  Þar segir meðal annars að þær feli í sér rangar sakargiftir, kröfurnar veki furðu og um sé að ræða dylgjur og aðdróttanir. Í niðurlagi bréfsins er ítrekað það mat yfirkjörstjórnarinnar að hún hafi í einu og öllu farið að lögum varðandi framkvæmd kosninganna og talningu atkvæða.

„Ég ætla ekki að tjá mig um ummæli einstakra manna á þessu stigi,“ segir Birgir. Hefur þetta einhver áhrif á ykkar vinnu, það sem er að koma fram þarna? „Allt sem getur hjálpað okkur til að átta okkur á aðstæðum þarna og atvikum nýtist auðvitað í okkar vinnu.“

Birgir segist vonast til að um miðja næstu viku ættu flest gögn að liggja fyrir.

„Þá tekur við ákveðið mat af okkar hálfu á því hvort um sé að ræða galla á kosningaframkvæmdinni, hvort þetta séu verulegir gallar og hvort þeir séu líklegir til að hafa áhrif á niðurstöðu kosninganna. Það er það mat sem við getum ekki framkvæmt fyrr en við erum búin að fara í gegnum alla efnisþætti málsins.“

Er þetta flókið mál? „Kærumál gefa tilefni til að skoða ákveðna þætti. Sumt í þessu er snúið, annað ekki. Það er flókið þegar framkvæmd kosningar er kærð af mörgum aðilum og þegar álitaefni skapast um einstaka þætti framkvæmdarinnar.“

Erum ekki að velta fyrir okkur sekt eða sakleysi

Birgir segir að krafa lögreglunnar um að fulltrúar í kjörstjórn í Norðvesturkjördæmi greiði fjársektir fyrir að hafa brotið kosningalög hafi ekki áhrif á störf nefndarinnar.

„Það er bara partur af þeim upplýsingum sem við þurfum að hafa í höndunum þegar við tökum okkar afstöðu Við erum ekki að velta fyrir okkur sekt eða sakleysi eða neinu slíku en við erum hins vegar að reyna að átta okkur á því hvort kosningarnar hafi farið fram með réttum hætti og hvort það gefi tilefni til þess að samþykkja ekki einhver kjörbréf eða annað.“