Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Lík fannst við leit að Laundrie

21.10.2021 - 01:14
Mynd með færslu
 Mynd: North Port Police - RÚV
Bandaríska alríkislögreglan FBI kveðst hafa fundið líkamsleifar í leit sinni að Brian Laundrie, kærasta hinnar 22 ára Gabby Petito sem fannst látin á dögunum. AFP fréttastofan hefur eftir rannsóknarlögreglumanninum Michael McPherson að persónulegar eigur Laundrie hafi einnig fundist við leitina í Carlton Reserve friðlandinu í Flórída. Laundrie var leitað eftir að Petito varð saknað.

Petito birti myndir af ferðalagi þeirra Laundrie reglulega á Instagram. Ferðalagið hófst í júlí, en þegar foreldrar Petito náðu ekki sambandi við hana höfðu þeir samband við lögreglu. Lík hennar fannst í Wyoming, og telja yfirvöld að líkið hafi legið þar í um mánuð áður en það fannst um miðjan september. 

Lögregla reyndi að hafa samband við Laundrie þegar leit að Petito hófst. Hún taldi hann búa yfir upplýsingum um hvarfið, og síðar drápið á Petito. Hann fór einn til Flórída eftir að Petito hvarf og neitaði að svara spurningum lögreglu, áður en hann hvarf sjálfur.

Hvarf og andlát Petito hefur vakið mikla athygli fjölmiðla bæði vestanhafs og víðar um heim. Athyglin hefur einnig vakið umræðu um þann mun á umfjöllun sem mál hvítra kvenna sem hverfa fá miðað við önnur mannhvarfsmál.