Haft er eftir Hans Kluge, umdæmisstjóra Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í Evrópu, á vef stofnunarinnar að þótt dreifingin hafi gengið vel sé ekki ástæða til að berja sér á brjóst. Bóluefnin hafi dreifst misjafnlega og sum Evrópuríki séu langt á eftir öðrum í bólusetningu gegn veirunni.
Samkvæmt vikulegri samantekt Sóttvarnastofnunar Evrópu ECDC eru nokkur lönd í álfunni dökkrauð um þessar mundir vegna fjölgunar smita, þar á meðal Rússland, Rúmenía, Slóvenía og Búlgaría. Þá fer ástand versnandi í Bretlandi, þar sem samtök lækna hafa skorað á stjórnvöld að grípa til aðgerða til að hefta útbreiðsluna.
Rússar virðast verst settir um þessar mundir, þar sem dauðsföll af völdum COVID-19 hafa farið yfir eitt þúsund á sólarhring að undanförnu. Rússum verður gefið frí frá vinnu 30. október til 7. nóvember til þess að hægt verði að hægja á smitöldunni. Borgarstjóri Moskvu tilkynnti í dag að frá næsta fimmtudegi til sjöunda nóvember yrði einungis bráðnauðsynleg þjónusta veitt í borginni.
Bruce Aylward, aðalráðgjafi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, varaði í dag við því að heimsfaraldurinn ætti að líkidnum eftir að geisa fram eftir árinu 2022. Ástæðan sagði hann að væri sú að afar seint gengi að bólusetja fólk, þótt staðan væri mun betri annars staðar. Til dæmis sagði hann enn hefði ekki tekist að bólusetja nema innan við fimm prósent íbúa Afríkuríkja.