Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Staða í skólum að mörgu leyti erfiðari en áður í COVID

20.10.2021 - 08:19
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV/Landinn
Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur telur stöðuna í skólum að mörgu leyti erfiðari við að eiga nú en á fyrri stigum Covidfaraldursins. Dæmi eru um að skólabörn hafi þurft að fara allt að sjö sinnum í sóttkví.

 

Helgi Grímsson sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs borgarinnar segir ástæður flóknari stöðu en á fyrri stigum faraldurisins meðal annars að Delta afbrigðið smitist fremur en fyrri afbrigði. Börn séu frekar útsett en áður.

„ Nú er búið að bólusetja þá sem fundu mest fyrir alvarlegum einkennum veirunnar þannig að merki um að það sé smit í  gangi eru alltaf að verða flóknari og flóknari."

„En hvað segir þú sem sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs borgarinnar hvað er hægt að gera eða hvað ætti að gera?"

  „Það þarf að styrkja rakninguna í skólunum. Við þurfum að fá meiri stuðning og jafnvel að rakningateymið taki yfir rakninguna og að við séum með meiri viðbúnað í skólum þar sem að smit kemur upp að líta á sem lengri tíma verkefni og ekki ganga út frá því að fyrsta kast og fyrsta sóttkví sé það sem dugi heldur þurfi að endurskoða verklagið í skólanum einhverja daga og vikur á eftir."
 

 

Ólöf Rún Skúladóttir