Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Minni hækkun íbúðaverðs en á hinum Norðurlöndunum

20.10.2021 - 19:10
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Stöðug uppbygging íbúða mun hægja á hækkun íbúðaverðs samkvæmt spá Landsbankans. Hagfræðingur hjá bankanum segir íbúðaverð á öðrum Norðurlöndum hafa hækkað meira en á Íslandi í heimsfaraldrinum, en það megi líklega rekja til mikils framboðs af húsnæði hér í upphafi faraldursins.

Allt stefnir í að íbúðverð hækki um 14 prósent á þessu ári samkvæmt hagfræðideild Landsbankans sem í morgun birti nýja þjóðhags- og verðbólguspá. En síðan dragi úr hækkunum sem eru áætlaðar 9 prósent á næsta ári en verði svo um 4 prósent 2022. Þar hafi áhrif aðgerðir Seðlabankans, svo sem hækkanir stýrivaxta, lækkun veðhlutfalls og þak á greiðslubyrði. Þá sé útlit fyrir að þrýstingur muni almennt dreifast betur um hagkerfið þegar lífið kemst í eðlilegt horf - en líka vegna fjölda nýrra íbúða.

„Það er mjög mikið í byggingu á fyrstu stigum þannig að við teljum að saman muni þessir þættir gera það að verkum að við megum gera ráð fyrir aðeins rólegri íbúðamarkaði í átt að jafnvægi á næstu misserum,“ segir Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans.

Una bendir á að víða í nágrannalöndunum hafi húsnæðisverð hækkað meira en hér á landi, þrátt fyrir að þar hafi ekki verið hægt að lækka vexti til að bregðast við covid-faraldrinum. Það sýni hvaða áhrif faraldurinn einn og sér hafi. 

„Í rauninni eru öll Norðurlöndin með aðeins meiri hækkun en við. Ég held að það sé að hluta til af því að við höfum byggt aðeins meira af íbúðum heldur en nágrannaþjóðir okkar þannig að við, þannig að við bjuggum ágætlega að framboði þegar þessi mikli eftirspurnarskellur kom með covid-faraldrinum, í rauninni öllum að óvörum,“ segir Una.
 

 

Hjördís Rut Sigurjónsdóttir