Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Lagt til að fækka landsbyggðarprestum um tíu

20.10.2021 - 13:28
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Lagt verður til á komandi kirkjuþingi að fækka prestum kirkjunnar um tíu og hálft stöðugildi. Á sama tíma verður stöðugildum fjölgað á suðvesturhorninu. Dregið verður nokkuð úr sérþjónustu presta.

Þetta er meðal tillagna sem verða lagðar fyrir kirkjuþing sem fer fram um næstu helgi. Í minnisblaði með tillögunni segir að stöðugildum á landsbyggðinni verði fækkað um tíu og hálft en fjölgað í eystra Reykjavíkurprófastsdæmi um eitt og hálft stöðugildi og tveimur stöðugildum bætt við í Kjalarnesprófastsdæmi.

Fækkað er um eitt stöðugildi í Vesturlandsprófastsdæmi. Ólafsvíkur- og Ingjaldshóls-, Setbergs-, Staðastaðar- og Stykkishólmsprestaköll sameinast í eitt prestakall þar sem sóknarprestur og tveir prestar þjóna. 

Fækkað verður um tvö stöðugildi í Vestfjarðarprófastsdæmi og einnig í Húnavatns, og Skagafjarðarprófastsdæmi. Einnig er fækkað um tvö stöðugildi í Eyjafjarðar og Þingeyjarprófastsdæmi og í Austurlandsprófastsdæmi. Í Suðurprófastsdæmi er fækkað um eitt stöðugildi.

Þá er fækkað um 4 stöðugildi í sérþjónustu presta. Þar er lagt til að fækka prestum kvennakirkju um hálft stöðugildi og að það verði eftir breytinguna hálft stöðugildi. Þá er lagt til að leggja af stöðu sjúkrahúsprests og prestur sátta. Á móti verði fjölgað um 1,5 stöðugildi hjá farprestum og fækkað um þrjú stöðugildi hjá svokölluðum samningsprestum.  

Er þetta gert vegna hallareksturs kirkjunnar og breytinga á búsetu landsmanna samkvæmt tillögunni. Er talið að miðað við tekjur kirkjunnar verði unnt að halda úti um 135 stöðugildum presta á landinu en þær eru í dag um 145. Eins á að ná fram hagræði með sameiningu prestakalla. Þá er einnig lagt til að ráðningarbann sem aukakirkjuþing samþykkti fyrr á þessu ári og átti að gilda fram í nóvember verði framlengt til áramóta.