Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Ísland skilar auðu“

20.10.2021 - 16:53
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist
Bresk stjórnvöld tilkynntu fyrr í vikunni hvernig stefna eigi að kolefnishlutleysi árið 2050. Þetta var gert í tilefni af loftslagsráðstefnunni í Glasgow sem hefst um mánaðamótin. Halldór Þorgeirsson formaður Loftslagsráðs segir að þjóðum hafi boðist að skila inn slíkri framtíðarsýn, en Ísland hafi ekki lokið við sína. Það séu Loftslagsráði mikil vonbrigði.

Þess má vænta að mikið verði fjallað um loftslagsmál á næstu vikum vegna fundarins, og því fjallar Spegillinn um hvers er að vænta á fundinum í Skotlandi og rifjar upp helstu atriði Parísarsáttmálans, sem Glasgow-fundurinn byggir á. 

„Markmið Parísarsamningsins er að koma í veg fyrir meiriháttar röskun á veðrakerfum jarðar og raunverulega að halda utan um þá áhættu sem við erum að taka,“ segir Halldór Þorgeirsson formaður Loftslagsráðs.

Halldór var yfirmaður stefnumörkunar hjá Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og hélt utan um samninga um Parísarsamninginn sem gerður var í árslok 2015. Spegillinn leitaði því til Halldórs, nú í aðdraganda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í Glasgow um mánaðamótin, til þess að rifja upp meginmarkmið Parísarsamingins sem var undirritaður við mikinn fögnuð á sínum tíma.

Óðs manns æði að leyfa hlýnuninni að ná tveimur gráðum

„Samningurinn snýst um langtímamarkmið og þetta langtímamarkmið er að halda röskuninni innan marka. Þegar við tölum um þessi mörk þá notum við meðalhita, en megum kannski ekki taka það of bókstaflega,“ bendir hann á. „Þetta eru raunverulega merkimiðar á áhættu og það voru allir sammála um að það væri óðs manns æði að leyfa hlýnuninni að ná 2 gráðum, við þyrftum að vera mjög langt frá því og eins nálægt 1,5 gráðu og hægt er.“

„Þegar slíkt hefur verið ákveðið og þetta var siðferðisleg ákvörðun vegna þess að það var nauðsynlegt að móta framtíð þar sem allar þjóðir jarðar ættu sér einhverja framtíð, að þá um leið, þegar maður ákveður þetta, er eina leiðin til að stöðva röskunina að hætta að bæta meira af gróðurhúsalofttegundum inn í andrúmsloftið en við tökum til baka,“ segir Halldór. 

Gengur hægt að skrúfa fyrir kranann

„Það þarf sem sagt að ná því jafnvægi aftur. Það er hægt að hugsa þetta eins og það sé að fara að flæða yfir í baðkarinu þínu. Þú getur gert tvennt, þú skrúfar fyrir kranann og þú opnar líka fyrir niðurfallið. Við þurfum að gera hvort tveggja og það er þetta sem mannkynið er að gera í dag. En okkur gengur hægt að gera það, þetta er kapphlaup við tímann og þess vegna setti Parísarsamningurinn upp lotur, 5 ára lotur.“

Þarf að byggja upp hnattrænan metnað

Aðildarþjóðirnar lögðu fram hvað þær teldu sig geta lagt af mörkum til málaflokksins. „Þetta voru landsframlög sem við vorum komin með, en hugsunin var sú að þessi landsframlög yrðu alltaf öflugri og öflugri, metnaðurinn yrði alltaf meiri og meiri,“ segir Halldór. „Þess vegna snýst þetta alltaf um að byggja upp hnattrænan metnað, sameiginlegan metnað. Þannig er þessi taktur í samningnum, síðan byggir þessi samningur mjög mikið á bestu fáanlegu vísindum og þekkingu um stöðuna og þess vegna er líka byggt inn í þetta reglulegt stöðumat og fyrsta slíka stöðumatið, því á að ljúka núna eftir tvö ár. Þetta er tilraun til að ná utan um þetta stóra verkefni í meðfærilegum skrefum í fimm ára tímabilum.“

Aðildarþjóðirnar standa sig þó ekki í stykkinu. „Því miður liggur það fyrir að framlögin eru ekki nægjanleg, langt frá því að vera nægjanleg,“ segir Halldór. „Þess vegna snýst þetta um það að leysa úr læðingi meiri metnað, með tæknilegum lausnum, með pólitískum þrýstingi og samstarfi, með því að breyta hagkerfinu og öllu.“

Grundvallarbreytingar á grundvallarkerfum

Fram undan er ekkert smá verkefni, að breyta grundvallarkerfum okkar eins og orku- og fæðukerfunum, svo dæmi séu nefnd. Fyrst og fremst þarf að leggja af kolanotkun og draga úr olíunotkun minnir Halldór á. „En orka er grundvallarforsenda fyrir þróun og velsæld og þess vegna þarf að sjá fólki fyrir orku með öðrum leiðum. Þess vegna er kapphlaupið að byggja upp framleiðslugetu með endurnýjanlegri orku.“

Halldór bendir líka á að um þriðjungur af allri heimslosun stafi með einum eða öðrum hætti frá framleiðslu, dreifingu og neyslu fæðu. Því þurfi að breyta. „Við þurfum að fara mun neðar í fæðukeðjuna, það þarf að vera miklu hærra hlutfall af grænmeti í mat enda er það skynsamlegt út frá heilbrigðissjónarmiðum. Síðan þarf að draga úr sóun, þvert yfir. Það er feikilega mikil sóun í dag og Íslendingar eru held ég heimsmeistarar í því.“ 

En hvernig hafa Íslendingar staðið sig í að standa við Parísarsamkomulagið og hvaða markmið settu stjórnvöld vegna þess?

„Framlag Íslands til markmiða samningsins er hluti af sameiginlegu markmiði sem Ísland hefur sett sér með sínum nágrannaþjóðum, sem er mjög eðlilegt og mjög gott að takast á við svona verkefni í sambandi við þjóðir sem við eigum sameiginlega hagsmuni með. Þess vegna hefur Ísland sett fram það markmið að draga losunina saman um 55%. Það er mjög mikilvægt að það náist. Við erum langt frá því að vera á þeirri braut.“ 

Kapphlaup hafið á milli þjóða um kolefnislaus hagkerfi

Halldór segir að Íslendingar hafi mótað ýmsar aðgerðir, en þær hafi verið að einfaldari og auðveldari sortinni. 

„Nú erum við að takast á við miklu djúpstæðari viðfangsefni,“ segir Halldór. „Við þurfum að breyta því hvernig við sækjum fisk, með hvaða orku við sækjum fisk og það eru feikileg tækifæri í því vegna þess að það er markaður fyrir fisk með lágt eða ekkert kolefnisspor.“ 

Ekki má gleyma öðrum grundvallaratvinnuvegi. „Í ferðaþjónustu höfum við treyst eiginlega alfarið á jarðefnaeldsneyti í að koma gestum okkar um landið. Það er óábyrgt til framtíðar,“ segir hann. „Við erum að taka hér á móti skemmtiferðaskipum sem eru alveg skelfileg út frá ekki bara loftslagssjónarmiðum heldur líka loftmengunarsjónarmiðum. Þannig að við þurfum svolítið að horfa í eigin barm. Fyrir hvað stöndum við sem þjóð? Vegna þess að það hefur hafist kapphlaup á milli þjóða um hverjir verða fremstir í lágkolefnis- og kolefnishlutlausu hagkerfi framtíðarinnar, því það er eina hagkerfið sem er í boði.

Mynd: UNFCCC / flickr UNFCCC
Hér má hlusta á viðtal Spegilsins við Halldór Þorgeirsson um Parísarsamninginn.

Nú dugir ekki bara að lofa, það þarf að sýna árangur

Loftslagsráðstefnur Sameinuðu þjóðanna eru haldnar árlega en vekja mismikla athygli. Það er talsverð spenna fyrir loftslagsráðstefnuna í Glasgow sem hefst 31. október og ástæðan er sú að nú er komið að tímamótum. „Á fimm ára fresti eru stór tímamót í samningnum og þess vegna er þessi fundur jafnmikilvægur og París og á vissan hátt erfiðari heldur en París,“ segir Halldór.

„Á Parísarfundinum var gengið frá samningnum og rammanum en nú er komið að því að fara að skila árangri. Þess vegna snýst þetta fyrst og fremst um það að efla forystuna og fókusinn á viðfangsefnið. Það er ekki verið að semja um hluti þarna, það eru reyndar nokkur atriði sem þarf að semja um, það er ekkert aðalatriði. Nú er komið að því að allar þjóðir eru að horfa í eigin rann, hvernig ætla þau að komast á þennan stað sem við þurfum að komast á, hvernig ætlum við að umbylta okkar orkukerfum eða framleiðslukerfum og þess vegna eru núna mjög margar umræður í gangi,“ segir Halldór. „Þessi tímamót, Glasgow-fundurinn ýtir á slíka umræðu. Við þekkjum þetta bara í umræðum núverandi stjórnarflokka um næstu fjögur ár, sama er í Ástralíu, það er mjög mikil umræða í bandaríska þinginu.“ Mikilvægi fundanna snýst því um að á þeim fer fram uppgjör. 

„Þetta er tveggja vikna fundur og hann byrjar á því að þjóðarleiðtogar ávarpa fundinn,“ segir hann og nefnir að það verði fylgst vel með því hverjir mæta til Glasgow og hverjir ekki. „Allir þjóðarleiðtogar sem einhverju máli skipta voru í París. Mun það endurtaka sig? Það er mikið horft á það t.d. hvort að forseti Kína verður á staðnum en hann hefur ekki farið út fyrir Kína síðan fyrir COVID,“ segir Halldór sem finnst ekki rétt að lesa of mikið í það.

Má ekki einblína á stjórnvöld, aðgerðir fjárfesta skipta líka máli

„Í upphafi beinist þetta fyrst og fremst að þjóðarleiðtogunum og þeirra skilaboðum um hvert þeir ætla. Til viðbótar við samtal á milli ríkja eru þessir fundir mjög mikilvægur vettvangur fyrir samstarf í loftslagsmálum og þar eru í raun og veru stóru hlutirnir að gerast. Það er mjög mikilvægt þegar við erum að horfa á hvað er að gerast í heiminum að horfa ekki bara á ríkisstjórnir og hið opinbera, heldur líka á hvað fjárfestar eru að gera og hvað þeir eru að hugsa. Það er mjög mikið að gerast í Glasgow í tengslum við að gera fjármálakerfi heimsins fært um að takast á við þetta vandamál. Síðan er mikið fjallað um lausnir og hvað fólk hefur lært af lausnum,“ segir Halldór.

Skilum auðu í Skotlandi

Að sögn Halldórs verður mikið horft til framtíðarsýnar þjóða á fundinum. „Það hefur mikið verið talað um hvar þjóðir ætla að vera eftir 10 ár, þ.e. 2030 en það er ekki síður mikilvægt að spyrja aðeins lengra fram í tímann. Þess vegna var öllum þjóðum boðið að leggja fram sína framtíðarsýn. Það hafa margar þjóðir gert það og Bretar t.d. kynntu sína framtíðarsýn á mánudag í þessari viku. Því miður, og það eru mikil vonbrigði fyrir Loftslagsráð, þá liggur ekki fyrir hver framtíðarsýn Íslands er. Það hefur verið lögð vinna í það en þeirri vinnu hefur ekki verið lokið, þannig að Ísland skilar auðu þegar kemur að því að tala um okkar framtíðarsýn,“ segir Halldór Þorgeirsson formaður Loftslagsráðs og brýnir fyrir fólki í að taka sig á í þeim efnum. 

„Það er svo mikilvægt að átta sig á því hvers konar kolefnishlutlaust Ísland við viljum, vegna þess að það eru margar leiðir að kolefnishlutleysi.“ 

Mynd: Shutterstuck / RÚV
Hér má hlusta á viðtal Spegilsins við Halldór um ráðstefnuna sem verður haldin í Glasgow um mánaðamótin.
ragnhildurth's picture
Ragnhildur Thorlacius
Fréttastofa RÚV