Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Húsleit í eignum ólígarka í Bandaríkjunum

20.10.2021 - 03:04
epa09532711 (FILE) - Oleg Deripaska, Russian aluminum giant RUSAL President, attends Russian Union of Industrialists and Entrepreneurs (RSPP) congress which is held within the Week of Russian Business in Moscow, Russia, 19 March 2015 (reissued 19 October 2021). The FBI raids the home of Russian oligarch and Putin ally Oleg Deripaska in the Embassy Row neighborhood of Washington, DC, USA, 19 October 2021. The FBI did not specify the reason of the court-authorized raid.  EPA-EFE/YURI KOCHETKOV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríska alríkislögreglan FBI gerði í gær húsleit í eignum rússneska ólígarkans Oleg Deripaska í Bandaríkjunum. Talsmaður hans segir að leitað hafi verið í tveimur eignum hans, annars vegar í höfuðborginni Washington og hins vegar í New York.

Deripaska er náinn rússneska forsetanum Vladimír Pútín. Hann var beittur viðskiptaþvingunum af hálfu Bandaríkjanna árið 2018, og eru leitarheimildirnar fengnar í tengslum við þær að sögn fréttastofu BBC. FBI hefur ekki gefið út hvers vegna leitað er á heimilum hans núna, eða að hverju sé leitað.

Deripaska auðgaðist á viðskiptum með málma á tíunda áratug síðustu aldar. Hann stofnaði svo iðnaðarfyrirtækið Basic Element árið 1997, sem er eitt það stærsta í Rússlandi. 

Bandaríska fjármálaráðuneytið lagði viðskiptaþvinganir á Deripaska auk sex annarra rússneskra ólígarka og fyrirtækja í eigu þeirra árið 2018. Steven Mnuchin, þáverandi fjármálaráðherra, sagði það gert vegna tilrauna Rússa til að hafa áhrif á bandarísku forsetakosningarnar árið 2016. Ári síðar aflétti þáverandi Bandaríkjaforseti, Donald Trump, þvingunum af þremur fyrirtækjum tengdum Deripaska eftir að hann vék úr stjórn þeirra.