Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Fjögur kíló af kókaíni í innfluttum bíl - Tvö í haldi

Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
1500  E-töflur og 300 grömm til viðbótar við kílóin fjögur af kókaíni fundust í aðgerð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Fólkið sem var handtekið sat í viku gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarhagsmuna en gæsluvarðhaldið hefur nú verið framlengt um fjórar vikur til viðbótar í ljósi almannahagsmuna.

Karl og kona á þrítugs og fertugsaldri sitja í gæsluvarðhaldi eftir að lagt var hald á fjögur kíló af kókaíni í bíl sem fluttur var til landsins.  Bíllinn var fluttur inn með ferjunni Norrænu. Innflutningurinn tengist erlendum afbrotahópum.

 Fólkið var handtekið í aðgerðum lögreglu, eftir að  það sótti bílinn sem fluttur var inn á  þess nafni.

Kókaínið fannst í sérútbúnu hólfi í bílnum, en hann kom hingað frá Evrópu. Lögregla vill ekki gefa upp frá hvaða Evrópulandi bíllinn var fluttur inn en segir ljóst að smyglið tengist erlendum afbrotahópum.

Að sögn lögreglu eru bílar jafnvel sendir í sérstakar breytingar til að útbúa hólf með fíkniefnasmygl í huga. Lögregluyfirvöld hér á landi hafa verið í samstarfi við Europol og erlend lögregluyfirvöld við rannsókn málsins auk þess sem samstarf hefur verið við tollayfirvöld hér á landi. Málið kom upp fyrir rúmum þremur vikum en lögregla hefur ekki viljað gefa upplýsingar fyrr vegna rannsóknarinnar sem nú er á lokametrunum.

Fréttin hefur verið uppfærð.
 

 

Ólöf Rún Skúladóttir