Drottning segist ekki nógu gömul fyrir öldungaverðlaun

Elísabet Englandsdrottning
 Mynd: YouTube - Skjáskot

Drottning segist ekki nógu gömul fyrir öldungaverðlaun

20.10.2021 - 06:29

Höfundar

Hin hálftíræða Elísabet Englandsdrottning hafnaði nýverið heiðursverðlaunum breska tímaritsins Oldie sem öldungur ársins. Hún sendi tímaritinu bréf þar sem hún hafnaði verðlaununum kurteislega, en þó ákveðið, á þeim forsendum að hún falli ekki í hóp þeirra sem hægt sé að tilnefna. Aldur sé afstæður, maður er bara jafn gamall og manni líður, skrifaði drottningin.

Tímaritið Oldie var stofnað fyrir um aldarfjórðungi sem létt og skemmtilegt tímarit til að vega upp á móti æskuljóma og stjörnufans annarra fjölmiðla. Á vef ritsins segir að það sé tímalaus miðill, fullur af skemmtilegheitum og alveg laus við ráðleggingar um hvað skuli gera eftir að sest er í helgan stein.

Á hverju ári velur tímaritið nokkra af eldri kynslóðinni sem hafa lagt sig fram í þágu almennings. Þar sem drottningin hafnaði verðlaununum féllu þau í skaut leikkonunnar og dansarans Leslie Caron, sem er níræð. Fyrrum enski landsliðsmaðurinn í fótbolta Geoff Hurst hlaut öldunga-gullskóinn, og kokkurinn og sjónvarpsstjarnan Delia Smith var heiðruð fyrir að vera algjört æði.

Filipus drottningamaður heitinn hlaut öldungaverðlaunin árið 2011, þegar hann var níræður. Hann þakkaði þá fyrir sig með þeim orðum að fátt væri betra fyrir andann en að vera minntur á hversu sífellt hraðar árin færist yfir.