Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Afléttingar sem tóku gildi á miðnætti

20.10.2021 - 07:23
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Talsverðar afléttingar hafa tekið gildi. Almenn grímuskylda er ekki lengur við lýði og nú mega 2.000 manns koma saman. Gert er ráð fyrir að öllum samkomutakmörkunum verði aflétt eftir fjórar vikur.

Afléttingum aðgerða var skipt í tvennt. Fyrri aflétting tók gildi á miðnætti og er svohljóðandi:

  • Almennar fjöldatakmarkanir 2.000 manns í stað 500.
  • Nándarregla óbreytt 1 metri, með sömu undantekningum og verið hafa, s.s. á sitjandi viðburðum og þjónustu sem krefst mikillar nándar.
  • Með notkun hraðprófa má víkja frá fjöldatakmörkunum og nándarreglu.
  • Grímuskyldu aflétt að frátöldum sérstökum reglum á heilbrigðisstofnunum.
  • Skráningarskyldu á viðburðum og veitingahúsum aflétt.
  • Opnunartími veitingastaða þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar lengdur um klukkustund, til kl. 01:00. Rýma þarf staði fyrir kl. 02:00.

Þann 18. nóvember er svo stefnt að því að aflétta öllum samkomutakmörkunum, með þeim fyrirvara að faraldurinn þróist ekki til verri vegar. Þar er fyrst og fremst horft til þess að heilbrigðiskerfið standist álag vegna COVID-19 innlagna. Áfram á að beita sóttkví, einangrun og smitrakningu en fyrirkomulag þessa á að endurskoða í samráði við sóttvarnalækni.

Í minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra er meðal annars gerður samanburður á stöðu faraldursins á Íslandi miðað við nágrannalöndin. Þar kemur fram að í Danmörku hafi öllum aðgerðum verið aflétt í byrjun september. Fyrst til að byrja með hafi tilfellum fækkað en um miðjan mánuðinn byrjaði smitum að fjölga. Innlagnir á spítala hafa haldist nokkuð stöðugar en fjölgað nokkuð seinustu daga. Hið sama er að segja frá Englandi þar sem smitum, innlögnum og dauðsföllum hefur fjölgað nokkuð. Þar var takmörkunum aflétt í júlí. 

Í Noregi og Svíþjóð var svo til öllum takmörkunum aflétt í lok september. Þar hefur daglegum smitum ekki fjölgað, né innlögnum á spítala en sóttvarnalæknir segir að tíminn eigi eftir að leiða í ljós hverjar afleiðingar afléttinga þar í landi verða. 

Þá setur sóttvarnalæknir fram þrjá punkta sem hann telur helstu leiðir til að fást við faraldurinn.

  • Auka getu sjúkrahúsa/Landspítala til að fást við COVID-19, þ. á m. getu til að sinna alvarlega veikum sjúklingum á gjörgæsludeildum.  
  • Takmarka útbreiðslu kórónuveirunnar í samfélaginu með samfélagslega aðgerðum í samræmi við getu/þol sjúkrahúsa/Landspítala. Ávallt skuli þó hafa aðgerðir eins lítið íþyngjandi og kostur er.  
  • Auka þátttöku í bólusetningu gegn COVID-19 eins og hægt er. Á þessari stundu er hins vegar vandséð hvernig eigi að auka hana frekar frá því sem nú er.

Reglugerðina má sjá hér og minnisblað sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra hér.