Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Áætlanir ríkja heims langt yfir loftslagsmarkmiðum

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Miðað við núverandi áætlanir stefna ríki heims á að framleiða rúmlega tvöfalt magn kola, olíu og gass miðað við þau mörk sem sett hafa verið til að koma í veg fyrir að hlýnun jarðar fari yfir eina og hálfa gráðu. Þetta kemur fram í skýrslu umhverfisnefndar Sameinuðu þjóðanna í dag. 

Alls ætla þjóðir heims að framleiða 240 prósentum meira af kolum, 57 prósentum meira af olíu og 71 prósenti meira af gasi fram til ársins 2030 en markmið Parísarsamkomulagsins gera ráð fyrir. Nefndin segir þetta hættulega mikið frávik. Sameinuðu þjóðirnar segja að útblástur verði að minnka um nærri helming fyrir árið 2030 og kolefnisjöfnun verði að nást að fullu um miðja öldina til þess að koma í veg fyrir hlýnun yfir eina og hálfa gráðu frá því fyrir iðnbyltingu.

Samkvæmt skýrslu umhverfisnefndarinnar lítur út fyrir að framleiðsla á jarðefnaeldsneyti haldi áfram að aukast fram til ársins 2040 hið minnsta. Áætlanir ríkja heims fram næsta áratuginn eru 110 prósentum yfir því sem gæti komið í veg fyrir hækkun meðalhita jarðar um eina og hálfa gráðu að sögn nefndarinnar, og 45 prósentum yfir því sem gæti komið í veg fyrir að hitinn fari yfir tvær gráður. 

Meðalhiti er nú rétt rúmlega gráðu hærri en hann var fyrir iðnbyltingu, um miðja nítjándu öld. Það hefur valdið hækkandi sjávarborði, sem hefur orðið til talsverðra veðuröfga víða um heim, að sögn AFP fréttastofunnar.

Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París árið 2015 samþykktu ríki heims að vinna að því að takmarka útblástur með það að markmiði að koma í veg fyrir að meðalhiti færi yfir tvær gráður, helst ekki hærra en eina og hálfa. Samantekt Sameinuðu þjóðanna í síðasta mánuði benti til þess að miðað við áætlanir ætti meðalhitastig jarðar eftir að hækka um 2,7 gráður í lok þessarar aldar miðað við tíma iðnbyltingarinnar.