Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

12 daga fangelsi ef sektin verður ekki greidd

Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Karl Gauti Hjaltason, sem kærði endurtalningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi til lögreglu, segir að ákvörðun lögreglustjórans á Vesturlandi um að bjóða kjörstjórnarmönnum að greiða sekt staðfesti að fyrri talningin eigi að standa. Frambjóðandi Pírata sem ekki náði kjöri segir að staðan í málinu kalli á að uppkosning fari fram í kjördæminu. Svo virðist sem kjörstjórnarmenn ætli ekki að þiggja boð um að greiða sekt. Það gæti varðað 12 daga fangelsi

Lögreglustjórinn á Vesturland hefur senti öllum yfirkjörstjórnarmönnum í kjördæminu sektargerð sem birtir boð um að þeir greiði sekt til að ljúka málinu. Þeir eru fimm talsins. Formanninum er gert að greiða  250 þúsund króna sekt og hinum fjórum sem eru í kjörstjórninni að greiða 150 þúsund krónur. Samkvæmt heimildum Spegilsins er kjörstjórnarmönnum talsvert brugðið. Í sektargerðinni kemur fram að brotið lúti að því að kjörkassar hafi verið geymdir óinnsiglaðir. Í sektargerðinni er vísað til laga um kosningar til Alþingis, fyrst til greinar 124. Þar segir: 

Það varðar sektum, ef ekki liggur þyngri refsing við eftir öðrum ákvæðum þessara laga eða eftir öðrum lögum, ef sveitarstjórn, kjörstjórn, utankjörfundarkjörstjóri eða embættismaður hagar fyrirskipaðri framkvæmd laga þessara vísvitandi á ólöglegan hátt eða vanrækir hana. 

Einnig er vísað til 104. greinar laganna sem kveður á um að innsigla eigi kjörgögn.

Yfirkjörstjórnarmönnunum fimm er gert að greiða sektina eigi síðar en á mánudaginn í næstu viku. Verði hún ekki greidd  kemur fram að heimilt sé að beita fjárnámi eða 12 daga fangelsi. Einnig að afgreiðsla málsins færist á sakaskrá. Nú er nokkuð ljóst að þeir ætla ekki að greiða sektina í ljósi þess að þeir telja að þeir hafi ekki brotið af sér.

Fyrri talningin gildi

Það var Karl Gauti Hjaltason frambjóðandi Miðflokksins sem kærði talninguna til lögreglu. Aðrir hafa kært hana til kjörbréfanefndar Alþingis. Hann segir að þetta marki ákveðin vatnaskil í málinu. Ekki sé verjandi að byggja úrslit alþingiskosninga á gögnum þar sem lögregla telur að refsivert brot hafi verið framið. Hann vill að fyrsta talningin gildi.

„Já, það eru mín viðbrögð. Ég held að kosningarnar sjálfar hafi almennt farið vel fram og talning í öllum kjördæmum. Ég hef ekki heyrt neinar athugasemdir um það þannig að ég tel að menn eigi að bakka til baka til þeirrar framkvæmdar sem var lögleg og athugasemdalaus en miða ekki við löglausa athöfn sem átt sér stað í Borgarnesi eftir að kjörstjórn yfirgefur talningarstað,“ segir Karl Gauti.

Vill að kosið verður aftur

Magnús Davíð Norðdahl bauð sig fram fyrir Pírata í Norðvesturkjördæmi en náði ekki kjöri. Hann hefur kært talninguna til kjörbréfanefndar. Hann vill að kosningin verði endurtekin í kjördæminu í ljósi ákvörðunar lögreglustjórans á Vesturlandi og  vegna upplýsinga um að starfsfólks hótelsins þar sem kjörgögn voru geymd óinnsigluð hafi ítrekað farið inn í salinn.

„Þetta staðfestir það sem fyrir lá. Það hefur legið fyrir nú í nokkurn tíma að vörslur kjörgagna voru ekki ekki tryggar. Það er auðvitað einhver sem ber ábyrgð á því þannig að þetta er eðlilegt framhald málsins miðað við þær staðreyndir sem áður lágu fyrir. Aðrar fréttir í dag sem eru ákaflega mikilvægar í þessu samhengi eru þær að myndbandsupptökur hafa nú staðfest að óviðkomandi aðilar fóru inn í salinn þar sem kjörgögn voru geymd. Við vissum það á fyrri stigum að þessi möguleiki var fyrir hendi að einhver óviðkomandi hefði getað farið þarna inn. En nú liggur það bara fyrir að aðilar fóru þarna inn sem áttu ekki erindi þangað. Í salnum voru óinnsigluð kjörgögn í opnum kössum. Þannig að ég held að miðað við tíðindi dagsins þá sé það óumflýjanlegt annað en að þessar kosningar í Norðvesturkjördæmi verði ógiltar og að fram fari uppkosning í samræmi við ákvæði laga þar um,“ segir Magnús Davíð.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV