Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Jafnlítil losun og í covid og Parísarmarkmið næst

epaselect epa07780048 A hiker makes their way to where Okjoekull glacier will be commemorated after it was lost to climate change, in in west-central Iceland, 18 August 2019. The plaque, in Icelandic and English language, commemorating the Ok (short for Okjoekull) glacier, is named 'A Letter to the Future'. Researchers hope that the plaque, which is the first of its kind in the world, will draw attention to the climate crisis.  EPA-EFE/STR
 Mynd: STR - EPA
Ef losun Íslands helst jafn lítil og hún var í faraldrinum í fyrra ætti árið í ár að verða innan þeirra marka sem Ísland setti sér samkvæmt Parísarsamkomulaginu. Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna hefst í Skotlandi í lok mánaðarins. 

Þetta verður 26. loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna. Umhverfisstofnun heldur utan um losunarbókhald Íslands. Ísland, líkt og fleiri ríki, setti sér markmið um losun á árunum 2021 til 2030.

Rafn Helgason, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að ekki sé orðið alveg ljóst hvort Ísland standi við skuldbindingar sínar í Parísar-samkomulaginu á fyrsta ári samkomulagsins, sem er árið í ár. 

„Við getum ekki alveg ráðið í það hvort við séum nákvæmlega að fara að halda okkur undir Parísarstrikinu. Við þurfum að ná svona línulegum samdrætti niður þessi ár. En við erum næstum því á pari við það sem fyrsta árið segir ef við höldum okkur á pari við það sem var á covid-árinu,“ segir Rafn í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2.

Sem var mjög óvenjulegt ár?

„Já, sem er svolítið óvenjulegt ár,“ segir Rafn.

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir að enn vanti töluleg markmið þriggja stórra ríkja um losun: Kína, Indlands og Bandaríkjanna. Markmiðið er að hitastig hækki ekki meira en um eina og hálfa gráðu. 

„Einn erfiðasti átakapunkturinn í þessu er milli stórra þróunarríkja eins og Kína og Indlands og svo Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Iðnríkin bera ábyrgð á vandanum fyrst og fremst. Það voru þau sem byrjuðu að brenna kol upp úr 1850. Svo eru ríki eins og Kína sem hafa aukið losun gríðarlega á síðustu 20 árum. Þá segja þau: þið voruð að skemmta ykkur í 150 ár og nú er komið að okkur,“ segir Árni.