Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fleiri ungar stúlkur senda af sér nektarmyndir

19.10.2021 - 22:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forstöðumaður Barnahúss segir það færast  í aukana að ungar stúlkur fallist á að senda nektarmyndir af sér og finnist slíkt ekkert tiltökumál. Klámáhorf sé orðið algengt, einkum hjá drengjum, alveg niður í ellefu ára aldur.

Fram kom í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld að nærri 60% stelpna í 10. bekk hafa verið beðnar um að sendar af sér nektarmynd eða ögrandi mynd og rúm 30% hafa gert það. Margrét K. Magnúsdóttir forstöðumaður Barnahúss segir málum af þessu tagi fara fjölgandi.

„Já, það virðist vera. Við höfum séð töluverða aukningu á þessu.“
Mælið þið það á málum sem eru tilkynnt til ykkar?
„Já.“
Hvað er hægt að gera?
„Fræða börnin okkar og að foreldrar fylgist betur með hvað börnin eru að gera í snjallsímunum og í tölvunum.“

Margrét segir börnin þó yfirleitt komin lengra í tækninni heldur en foreldrarnir. Hún segir ekki endilega erfitt að koma varnaðarorðum til ungra stúlkna.

„Nei, kannski ekki. Það er kannski þetta almenna viðhorf hjá ungum krökkum í dag, að þetta er bara svolítið normið.“

Sumum finnist þetta jafnvel flott, en geri sér ekki alltaf grein fyrir afleiðingunum.

„Já, nákvæmlega. Þau gera sér ekki grein fyrir að myndin getur farið í dreifingu og endað jafnvel inni á einhverjum óæskilegum síðum.“

Fram kom í Kveik að greiðslur fyrir myndir af þessu tagi og fleira geti virst auðfengið fé. Aðspurð hvort að peningarnir freisti ungra stúlkna segir Margrét:

„Örugglega fyrir sumar, já, ég myndi halda það. Eins og kom fram í þeirri frétt, auðveldir peningar.“

Hún segir mikilvægt að halda áfram að brýna alvöru málsins fyrir börnunum. Klámáhorf sé orðið mjög algengt, sérstaklega hjá drengjum, alveg niður í ellefu ára aldur.