Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tölvuþrjótar krefja HR um lausnargjald

18.10.2021 - 14:39
Mynd með færslu
 Mynd: Háskólinn í Reykjavík
Tölvuþrjótar réðust á póstþjón Háskólans í Reykjavík í síðustu viku og dulkóðuðu skrár. Talið er að árásin hafi valdið takmörkuðum skaða á einn póstþjón og tölvupóstar nemenda séu ekki undir, þar sem þeir eru geymdir í sameiginlegu skýi. Árásarmennirnir hóta því að birta tölvupóst starfsmanna, og krefjast lausnargjalds.

„Á póstþjóninum var skilið eftir bréf þar sem þess er krafist að HR greiði 10.000 dollara lausnargjald (um 1,3 milljónir króna), ella verði tölvupóstar starfsmanna gerðir opinberir. Gefinn er 14 daga frestur til að greiða lausnargjaldið. Hvort tveggja er mjög óvenjulegt sem kann að benda til að ekki sé um vel skipulagða árás að ræða. Afstaða HR er skýr um að háskólinn mun ekki láta undan fjárkúgun og er sú afstaða í samræmi við leiðbeiningar lögreglu til þeirra sem verða fyrir tölvuglæpum,“ segir í tilkynningu frá HR.

Starfsmenn upplýsingatækni háskólans hafi unnið að því um helgina að koma í veg fyrir tjón af völdum árásarinnar og meta umfang hennar og áhrif. Sú vinna sé enn í gangi með helstu sérfræðingum landsins á sviði tölvuglæpa, frá Advania, tölvuöryggisfyrirtækinu Syndis, lögreglu og fleirum. Auk lögreglu hafi Persónuvernd og netöryggissveitinni CERT-IS verið tilkynnt um málið.

Haft er eftir Ragnhildi Helgadóttur, rektor Háskólans í Reykjavík, að árásir sem þessi séu algengari en flestir geri sér grein fyrir. „Við erum að vinna með færustu sérfræðingum landsins á sviði tölvuglæpa og er sagt af þeim að almennt séu tölvuöryggismál HR í góðu lagi, þó það hafi ekki dugað til að koma í veg fyrir árás í þessu tilviki.“

„Þetta er hundleiðinlegt en ef háskólar geta ekki staðið í fæturna og sagt frá þegar á þeim og mögulega friðhelgi starfsfólks þeirra er brotið, þá er erfitt að ætlast til þess af öðrum,“ segir hún.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV