Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Þingmenn minntust Davids Amess

18.10.2021 - 17:33
epa09530334 People from the Iranian community hold a vigil for MP Sir David Amess outside parliament in London, Britain, 18 October 2021. British Prime Minister Johnson is to lead tributes to MP David Amess at parliament later today. Amess was stabbed to death at a church in Leigh-on-Sea on 15 October.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE
Davids Amess, þingmanns breska Íhaldsflokksins, var minnst í dag í neðri málstofunni í Westminster. Hann var stunginn til bana á föstudag þar sem hann var með viðtalstíma fyrir kjósendur í bænum Leigh-on-Sea.

Amess hafði setið á þingi frá árinu 1983. Hann var sannarlega ekki einn af þekktari þingmönnum Íhaldsflokksins en ef marka mátti umsagnir þingmanna í dag var hann einstaklega vel liðinn. Hann særðist lífshættulega þegar hálfþrítugur maður stakk hann mörgum stungum á föstudag og var látinn þegar komið var með hann á sjúkrahús.

Nokkrir þingmenn nefndu í dag að hætta virtist steðja að fólki í þeirra stöðu. Chris Bryant, þingmaður Verkamannaflokksins, greindi þingheimi frá því að honum hefði borist líflátshótun á laugardag. Dominic Raab, fyrrverandi utanríkisráðherra, sagði að hann hefði fengið þrjár hótanir um líflát og limlestingar síðustu tvö ár, þar á meðal að sýru yrði skvett í andlit hans.

David Amess sat á þingi fyrir kjördæmið Southend-West. Hann hafði lengi þrýst á um að borg hans Southend fengi sæmdarheitið City. Honum varð að ósk sinni í dag þegar Boris Johnson forsætisráðherra tilkynnti að Bretadrottning hefði fallist á beiðnina.

Sæmdarheitið City geta þeir þéttbýlisstaðir í Bretlandi fengið þar sem íbúarnir eru fleiri en þrjú hundruð þúsund, stjórnkerfið er til fyrirmyndar og stórborgarbragur ríkir.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV