Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Taka ekki undir tillögu um raforku um sæstreng

18.10.2021 - 21:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Hvorki forsætisráðherra né samgönguráðherra taka undir hugmyndir fyrrverandi forseta Íslands um lagningu raforkustrengs til Evrópu. Forgangsatriði sé að nýta orkuna innanlands.

Ólafur Ragnar Grímsson forsvarsmaður Hringborðs Norðurslóða og fyrrverandi forseti Íslands segir að Íslendingar ættu að skoða þann möguleika að leggja sæstreng til Evrópu og selja rafmagn á þann hátt. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur að nýta eigi orkuna á annan hátt.

„Það hefur ekki verið ríkur vilji til þess á Alþingi Íslendinga að ráðast í slíka framkvæmd, að selja orku um rafstreng, en hins vegar held ég að það sé vilji til þess að við nýtum innlenda orkugjafa til þess að ráðast í orkuskipti á Íslandi. Og þar held ég að við Íslendingar eigum mikla möguleika á að  vera mjög framarlega í samfélagi þjóðanna þegar kemur að orkuskiptum hér á landi.“
Eigum við að hugsa um heimamarkaði varðandi orkunýtinguna?
„Ég myndi telja það vera forgangsatriði.“

Samgönguráðherra segir Framsóknarflokkinn ekki hafa verið hrifinn að því að leggja rafstreng til Evrópu, því fylgi kostir og gallar, til dæmis ef sú staða kæmi upp að orku vantaði hér mögulega vegna náttúruhamfara.

„Við hins vegar viljum fyrst og fremst tryggja að atvinnuuppbyggingin verði hér. Það sem við höfum verið að horfa á síðustu misserin og kannski svolítið inn í næstu framtíð er að við gætum farið að framleiða hér rafeldsneyti eins og vetni og þannig flutt úr orkuna. En þá með þessari auknu verðmætasköpun hér á Íslandi og mér finnst það nú vera áhugaverðari leið til að byrja með, hvað svo sem gerist í einhverri mjög fjarlægri framtíð, ég skal ekki úttala mig um það,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson.