Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sósíalistar lofa - aftur - að útrýma vændi á Spáni

18.10.2021 - 03:27
Erlent · Spánn · vændi · Evrópa · Stjórnmál
epa02401714 An exterior view of the Night Club Paradise in La Jonquera in north-eastern Spain, close to the French border, 19 October 2010. The brothel, one of the biggest in Europe, will be inaugurated on 21 October after years of litigations and halts of the building works. La Jonquera city council is totally against the opening of such a establishment in the city. The club's owner, Jose Moreno, said that 150 women from Russia, Rumania, Poland and other countries of Eastern Europe, and also from Spain, will work on the premises.  EPA/ROBIN TOWNSEND
Paradís í La Jonquera í Katalóníu, rétt við frönsku landamærin, er eitt stærsta vændishús Evrópu. Sameinuðu þjóðirnar segja vændi óvíða útbreiddara en á Spáni.  Mynd: epa
Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, hét því í gær að binda enda á vændissölu í landinu. Í lokaræðu sinni á þriggja daga flokksþingi Sósíalista, sem haldið var í Valencia, sagði Sanchez að með vændi væru konur í raun hnepptar í þrældóm. Bann við vændi var á stefnuskrá flokksins fyrir kosningarnar 2019.

Þriðjungur spænskra karla hefur keypt kynlíf

Sala vændis var afglæpavædd á Spáni árið 1995. Tuttugu árum síðar, 2015, áætlaði sérfræðihópur Sameinuðu þjóðanna að vændisiðnaðurinn á Spáni velti um það bil 3.7 milljörðum evra, jafngildi um 550 milljarða íslenskra króna og könnun sem gerð var árið 2009 leiddi í ljós að einn af hverjum þremur spænskum karlmönnum hafði greitt fyrir kynlíf.

Önnur könnun sem birt var sama ár benti til þess að hlutfallið væri enn hærra, eða fjórir af hverjum tíu. Þá var Spánn nefndur sem það land í heiminum, á eftir Taílandi og Púertó Ríkó, þar sem vændi væri hvað útbreiddast.

Um 300.000 konur í vændi

Í frétt BBC segir að hið opinbera leggi engar hömlur á vændisstarfsemi á Spáni í dag. Hvorki kaup né sala á vændi er refsiverð, að því gefnu að þau sem selja vændi geri það ótilneydd og ekki á almannafæri. Hins vegar er ólöglegt að hafa milligöngu um vændissölu, það er, að selja þriðja aðila aðgengi að líkama annarra og hagnast á því sjálfur. Talið er að allt að 300.000 konur stundi vændi á Spáni.

Lofuðu að útrýma vændi árið 2019

Bann við vændi var eitt af kosningaloforðum Sósíalistaflokksins árið 2019. Í stefnuskrá flokksins var vændi sagt ein grimmilegasta afleiðing fátæktar kvenna og „ein versta birtingarmynd ofbeldis á konum.“ Tveimur árum síðar bólar þó enn ekkert á efndum, segir í frétt BBC.

Telja mansal og kynlífsþrælkun útbreidda í kynlífsiðnaðinum

Formælendur óbreytts ástands segja afglæpavæðinguna hafa fært vændiskonum mun betri lífskjör og aukið öryggi þeirra til muna. Þetta stangast á við þá þróun sem lögregla hefur ekki farið varhluta af í sínum störfum og áhyggjur af kynlífsþrælkun í heimi spænskra vændiskvenna fara vaxandi.

Í umfangsmikilli aðgerð gegn mansali í kynlífsiðnaðinum árið 2017 skráði lögregla um 13.000 vændiskonur í sínar bækur. Fullyrti lögregla að minnst 80 prósent kvennanna væru  þvingaðar til að selja líkama sinn af þriðja aðila, gegn vilja sínum.