Greiðlega gekk að slökkva eld sem kviknaði í gömlu einlyftu íbúðarhúsi í Vík í Mýrdal á sjöunda tímanum í morgun. Roskinn maður sem býr í húsinu var kominn út af sjálfsdáðum þegar slökkvilið bar að garði.
Húsið stendur við Bakkabraut 7, uppi á hæðinni sunnan við þjóðveg eitt. Nokkrar skemmdir urðu á húsinu vegna elds, vatns og reyks enda mikill eldsmatur í því en það er er einangrað með heyi.
Að sögn Ívars Páls Bjartmarssonar, slökkviliðsstjóra í Vík logaði eldur í millilofti þegar slökkviliðið kom á staðinn og hann segir það ótrúlega lukku að íbúinn komst út af sjálfsdáðum.
Ívar sem stýrt hefur slökkviliði Víkur í fimmtán ár segir bruna afar sjaldgæfa í bænum en eldsvoðinn í morgun var annar eða þriðji slíkur á öllum þeim tíma. Rannsókn stendur yfir á upptökum eldsins en grunur beinist að rafbúnaði í húsinu.